Grímsvötn búin að fylla í alla dálkana

Magnús Tumi býst við öðru gosi í Grímsvötnum á næstunni …
Magnús Tumi býst við öðru gosi í Grímsvötnum á næstunni en eftir fyrsta gosið árið 1998 hófst virknitímabil á svæðinu. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson/Jón Viðar Sigurðsson

Magnús­ Tumi Guðmunds­son­, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir að Grímsvötn séu búin að „fylla í alla dálkana“ í undirbúningsferli sínu fyrir eldgos. Lítið jökulhlaup er hafið við eldstöðina.

Eins og mbl.is greindi frá í morgun telur Magnús Tumi jökulhlaup þegar hafið í Grímsvötnum. Hann segir hlaupið vera lítið og hafa þegar staðið yfir í þó nokkra daga.

Þrátt fyrir smæð hlaupsins segir Magnús töluvert um vatn vera í Gígjukvísl – álíka mikið og á góðum sumardegi. 

Skjálftavirkni aukist hægt og bítandi

Magnús bendir á að skjálftavirkni hafi aukist hægt og bítandi frá seinasta gosi í Grímsvötnum árið 2011. Merki eru um að þrýstingur og spenna fari vaxandi í eldstöðinni, segir hann.

„Það er eðlilegt að túlka þetta sem langtímafyrirboða eldgosa og skjálftavirknin hefur farið vaxandi,“ segir Magnús í samtali við mbl.is. 

Stærsti skjálfti sem mælst hef­ur frá upp­hafi mæl­inga við Grímsvötn, sem hófust árið 1991, reið yfir rétt fyrir klukkan 7 í morg­un og var 4,3 að stærð.

Hvar getur gosið?

Að mati jarðeðlisfræðingsins eru líklegustu staðirnir fyrir gos undir suðurbrún Grímsfjalls, sem er suðurjaðar Grímsvatnaöskjunnar.

„Við verðum bara að sjá hvert stefnir. Hins vegar eru Grímsvötn langt frá byggðu bóli. Það eru áttatíu kílómetrar í næstu byggð,  allt öðruvísi en á Reykjanesskaganum,“ segir Magnús.

Á móti kemur að gos í Grímsvötnum yrði sprengigos, sem myndi raska flugi. Þá fylgdi því líklega gjóskufall.

Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls.
Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls. mbl.is/Ragnar Axelsson

Gos í Grímsvötnum lítil eða meðalstór

Magnús á samt ekki von á stóru gosi.

„Flest gos í  Grímsvötnum flokkast sem meðalstór [eða] lítil. Þó gosmökkurinn fari þess vegna í tólf kílómetra stendur það ekkert mjög lengi,“ segir hann.  „Við verðum bara að bíða og sjá hvað gerist.“

Hann segir að vatn í jökulhlaupinu renni nú allt undan Skeiðárjökli í Gígjukvísl en „venjulegt Grímsvatnagos“ búi ekki til stór hlaup. 

Engin tengsl við virkni annars staðar

Engin merki eru um að eldsumbrot á Reykjanesskaga, landris í Öskju og virkni í Grímsvötnum séu að einhverju leyti tengd.

„Við erum með margar virkar eldstöðvar og hér gýs að meðaltali á um þriggja ára fresti. Svo koma tímabil með miklu tíðari gosum eins og við erum að sjá núna á Reykjanesskaganum.“

Hann bendir þó einnig á að virkustu eldstöðvar Íslands sýni mun oftar merki um að þær séu að fara að gjósa, heldur en þær raunverulega gjósi.

Samt bendi nánast allt til þess að goss sé að vænta í Grímsvötnum.

„Grímsvötn eru búin að fylla í alla dálkana í undirbúningsferlinu. Þannig við getum búist við að Grímsvötn séu bara tilbúin,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert