Forseti Íslands sæmdi í lok síðasta árs Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra stórkrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir embættisstörf, en Bjarni var forsætisráðherra árið 2017.
Þetta má sjá á lista yfir orðuhafa á vef forseta Íslands.
Hefð er fyrir því að forsætisráðherrar séu sæmdir stórkrossinum, en ekki hafa allir fengið eða þegið þá heiðursviðurkenningu.
Bjarni var sæmdur orðunni þann 22. desember 2023 fyrir embættisstörf en tilkynning þess efnis rataði ekki á vef embættisins fyrr en núna í janúar.
Fjölmiðlar voru ekki látnir vita þegar Bjarni var sæmdur orðunni.
Viljinn greinir fyrst frá.
Fram kemur í umfjöllun Viljans að nafn Bjarna Benediktssonar hafi hvergi komið fram á lista forsetans yfir orðuhafa á vefsíðunni, en að það hafi breyst í kjölfar fyrirspurnar Viljans.