Hlaupið sést á vefmyndavél

Frá Gígjukvísl fyrir hádegi í dag.
Frá Gígjukvísl fyrir hádegi í dag. Ljósmynd/Veðurstofan

Jökulhlaup úr Grímsvötnum sést glögglega á vefmyndavél þar sem hringvegurinn liggur yfir Gígjukvísl. Síðustu daga hefur hægt vaxandi hlaupórói mælst við eldstöðina og vatnsmagn í Gígjukvísl hefur einnig aukist frá í gær.

Myndin hér að ofan er tekin fyrir hádegi í dag. Á myndinni hér að neðan, sem tekin var þriðjudaginn 9. janúar, sjást sandeyrar ofan yfirborðs til hægri.

Þær eru alveg horfnar undir vatn á efri myndinni.

Gígjukvísl þriðjudaginn 9. janúar.
Gígjukvísl þriðjudaginn 9. janúar. Ljósmynd/Veðurstofan

Líklega vegna þrýstingsléttis

Talið er líklegt að jarðskjálftinn sem varð í morgun, sá stærsti frá upphafi mælinga í Grímsvötnum árið 1991, hafi orðið vegna þrýstingsléttis í kjölfar þess að jökulhlaupið hófst.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Síðast varð hlaup úr Grímsvötnum í október árið 2022. Árið 2021 hljóp úr vötnunum um mánaðamótin nóvember og desember.

Samkvæmt mælingum Jarðvísindastofnunar er vatnsmagn í Grímsvötnum nú talið vera um 0,29 rúmkílómetrar, sem er 50% meira en fyrir síðasta hlaup, en aðeins tæpur þriðjungur vatnsmagns fyrir hlaup í lok árs 2021.

Kort af áætlaðri hlaupleið úr Grímsvötnum niður í Gígjukvísl á …
Kort af áætlaðri hlaupleið úr Grímsvötnum niður í Gígjukvísl á Skeiðarársandi. Kort/Veðurstofa Íslands

Ætti ekki að hafa áhrif á mannvirki

Ekki næst samband við GPS-tæki Jarðvísindastofnunar á íshellunni í Grímsvötnum og er sambandsleysið sagt torvelda mat á því hversu ört vatnið rennur úr Grímsvötnum og niður farveginn undir Skeiðarárjökli.

„Ef miðað er við að atburðarás í þessu hlaupi verði svipuð og í síðustu tveimur hlaupum má gera ráð fyrir að hámarksrennsli úr Grímsvötnum verði um eða fljótlega eftir komandi helgi,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

Hámarksrennsli í Gígjukvísl við þjóðveg 1 verði svo um 1-2 sólarhringum seinna.

Miðað við það vatnsmagn sem safnast hefur í Grímsvötnum er líklegt að hámarksrennsli verði ekki umfram þúsund rúmmetra á sekúndu. Búast má við að hámarksrennsli í Gígjukvísl við þjóðveg 1 verði svipað og hámarksrennsli úr Grímsvötnum.

Hlaupið ætti því ekki hafa nein áhrif á mannvirki s.s. vegi og brýr.

Áður gosið í kjölfar hlaups

Rifjað er upp, eins og mbl.is hefur fjallað um, að dæmi séu um eldgos í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður árin 1934 og 1922.

„Mun oftar hefur þó hlaupið úr Grímsvötnum án þess að til eldgoss kæmi, og hafa 12 hlaup komið frá Grímsvötnum eftir 2004 án þess að eldgos hafi fylgt í kjölfarið. Síðast varð eldgos í Grímsvötnum árið 2011, en það var ekki í tengslum við jökulhlaup þaðan,“ segir í tilkynningunni.

Vegna jökulhlaupsins og aukinnar skjálftavirkni hefur fluglitakóði fyrir eldstöðina verið færður á gulan lit, í samræmi við það að eldstöðin sýnir merki um virkni umfram venjulegt ástand.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert