Hnífstungurnar ekki nauðsynlegar til að verjast árás

Héraðsdómur Norðurlands eystra segir í rökstuðningi sínum með átta ára …
Héraðsdómur Norðurlands eystra segir í rökstuðningi sínum með átta ára dómi yfir Steinþóri Einarssyni að framburður ákærða sé ótrúverðugur um það sem mestu varði, tilkomu áverka brotaþola. Á myndinni sjást Snorri Sturluson verjandi Steinþórs (t.v.) og Steinþór. mbl.is/Sonja

„Við lögbundið mat á trúverðugleika framburðar ákærða verður meðal annars að líta til innra samræmis með því að taka til skoðunar frásögn hans á fyrri stigum og bera saman við framburð hans fyrir dómi,“ segir í niðurstöðukafla átta ára fangelsisdóms Héraðsdóms Norðurlands eystra yfir Steinþóri Einarssyni fyrir víg Tómasar Waagfjörð aðfaranótt 3. október 2022.

Vísa héraðsdómarar þar til símtala Steinþórs við Neyðarlínu og framburðar hans við yfirheyrslur hjá lögreglu en réttarlæknir var þeim til fulltingis sem sérfróður meðdómsmaður.

Í málsatvika- og sönnunarfærslukafla dómsins, sem telur yfir eitt hundrað töluliði, kemur fram að framburður ákærða hafi í stórum dráttum verið stöðugur þótt nokkur atriði hafi þar tekið breytingum, þar á meðal á hvaða tímapunkti í átökum þeirra Tómasar heitins Steinþór hafi hlotið stungusár á læri auk þess að í framburði fyrir dómi hafi Steinþór gefið til kynna að honum hafi ekki verið ljóst fyrr en daginn eftir að Tómas hefði verið stunginn nóttina í október. Annað megi ráða af samtali hans við Neyðarlínu.

Blóðsýni innan úr jógaboltanum

Segir í dóminum að þrátt fyrir að hluti framburðar ákærða fái stuðning af öðrum gögnum málsins sé framburðurinn ótrúverðugur um þann hluta sem mestu varði, þannig hafi ákærði enga rökrétta skýringu gefið á tilkomu áverka Tómasar heitins. Augljóst sé að í frásögn hans vanti þann hluta er Tómas hlaut stungurnar.

Jógabolti, sem til staðar var í íbúðinni og sprengdur var með hnífstungu, sýni að mati dómsins að ljóst sé að báðum aðilum hafi blætt á þeim tímapunkti er boltinn var stunginn, það sýni blóðsýni úr boltanum innanverðum. „Er ekkert komið fram í málinu sem hnekkir því mati réttarlæknanna að áverkarnir séu til komnir fyrir ásetningsverk,“ segir svo og í framhaldinu að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi stungið Tómas tvívegis af ásetningi í síðuna með banvænum afleiðingum.

Þá hnekkir héraðsdómur þeirri viðbáru Steinþórs að hann hafi brugðist við í nauðvörn sem hegningarlög segja refsilausa að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, meðal annars að varnir þess sem ber fyrir sig nauðvörn hafi ekki verið augsýnilega hættulegri en árásin og tjón það, sem af henni mátti vænta, gaf tilefni til.

Ekki sýnt fram á nauðsyn verknaðar ákærða

Þvert á áskilnað ákvæðisins bendi gögn málsins til þess að leikar hafi snúist og ákærði haldið um hnífinn og beitt honum gegn óvopnuðum manni auk þess sem ætla megi að nokkur aflsmunur hafi verið með ákærða og Tómasi heitnum, ákærða í hag, en samkvæmt orðum verjanda fyrir dómi hafi hann talið Steinþór um 15 til 20 kílógrömmum þyngri en Tómas.

„Liggur ekkert fyrir um að á því tímamarki er hann [Steinþór] framdi þann stórhættulega verknað að stinga Y [Tómas] tvívegis í síðuna og veitti honum banvænan áverka hafi aðstæður verið með þeim hætti að verknaðurinn hafi verið honum nauðsynlegur til að verjast lífshættulegri árás. Ákærði ber sönnunarbyrðina fyrir því að aðstæður hafi þá verið með þeim hætti að um neyðarvörn hafi verið að ræða,“ segir í rökstuðningi dómsins sem vísar í tvo aðra dóma til stuðnings.

Orð ákærða við hinn látna, „Varstu að stinga mig þarna helvítið þitt![?]“ beri þá fremur vott um reiði af hálfu ákærða en skelfingu, en Steinþór bar því auk þess við að honum hefði orðið svo felmt við að hann hefði farið út fyrir mörk lögmætrar nauðvarnar.

Hugarástand ákærða á vettvangi

Framburður Steinþórs og eiginkonu Tómasar heitins, sem var á vettvangi, um orðaskipti Steinþórs við Tómas eftir að honum varð ljóst að Tómas var með hníf, fyrirmæli Steinþórs til eiginkonunnar um að hringja í Neyðarlínuna, yfirvegað yfirbragð hans í samtali við Neyðarlínuna og rólyndi hans á vettvangi er viðbragðsaðilar voru komnir þangað beri heldur ekki með sér að hugarástand ákærða á verknaðarstundu hafi verið með þeim hætti að honum væri stætt á að bera fyrir sig nauðvörn.

„Samkvæmt öllu framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir og er þar réttilega heimfærð til 211. gr. hgl. [...] Háttsemi ákærða var stórhættuleg, beindist að lífi og heilsu brotaþola og olli honum bana. Ákærði hefur ekki sýnt nein merki iðrunar í málinu. [...] Með því að ákærði hefur ekki skýrt rétt frá framvindu átakanna og upplýst hvernig aðstæður hafi verið á því tímamarki er hann beitti hnífnum gegn brotaþola þykir ekki unnt að líta svo á að forsendur séu til að beita 1. tl. 1. mgr. 74. gr. laganna við ákvörðun refsingar [um refsilækkun þegar sakborningur hefur farið út fyrir takmörk leyfilegrar nauðvarnar],“ segir í dóminum.

Reynslulausn og skilorðsrof

Telur dómurinn þó að líta megi til þess að ákærði sætti ólögmætri og hættulegri árás af hálfu brotaþola áður en hann framdi brot sitt sem fyrir vikið hafi verið framið í mikilli reiði eða geðæsingu þrátt fyrir að efni þyki ekki til að færa refsingu niður úr lögbundnu lágmarki – sem er fimm ára fangelsi.

Vegna fyrri brota Steinþórs og þeirrar staðreyndar að hann var á reynslulausn og rauf skilorð með hraðakstri og ítrekuðum akstri án réttinda, sem einnig er ákært fyrir í málinu, dæmdi héraðsdómur að 220 daga eftirstöðvar þriggja refsidóma skyldu dæmdar upp og refsing ákveðin í einu lagi.

Þótti refsing Steinþórs Einarssonar því hæfilega ákveðin átta ára fangelsi svo sem mbl.is greindi frá í kjölfar dómsuppsögu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert