Jökulhlaup hafið og eldgos talið líklegt

Síðast gaus í Grímsvötnum árið 2011 og þar áður árið …
Síðast gaus í Grímsvötnum árið 2011 og þar áður árið 2004. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Jökulhlaup er hafið úr Grímsvötnum og auknar líkur eru á gosi í eldstöðinni. Þetta segir Magnús­ Tumi Guðmunds­son­, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

Hann telur jökulhlaupið verða lítið. Það muni koma undan Skeiðarárjökli og renna í Gígjukvísl.

Hann kveðst búast við eldgosi á næstu misserum, þó erfitt sé að segja til um hvenær það verði.

Stærsti skjálfti sem mælst hefur frá upphafi mælinga við Grímsvötn reið yfir í morgun og var 4,3 að stærð, samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands.

„Það er lítið hlaup í gangi. Það þýðir að þrýstingur er að minnka á Grímsvötnum. Það eru meiri líkur á að það gjósi á meðan hlaup er í gangi eða í lok hlaups,“ segir Magnús Tumi við mbl.is.

Magnús Tumi Guðmunds­son, prófessor í jarðeðlisfræði.
Magnús Tumi Guðmunds­son, prófessor í jarðeðlisfræði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðeins klukkustundar fyrirvari

Hann segir það ljóst að Grímsvötn virðist tilbúin í gos. Skjálftavirkni hefur aukist og eldstöðin þanist út frá síðasta gosi árið 2011.

Grím­svötn eru lang­virk­asta eld­stöð lands­ins og um nokk­urra ára skeið hef­ur hún verið tal­in tilbúin til að gjósa enn á ný. Landris hef­ur mælst þar lengi og talið hef­ur verið víst að það sé sök­um kviku­söfn­un­ar und­ir niðri.

Árið 2020 hafði þensl­an í Gríms­fjalli náð sama marki og fyr­ir síðasta gos, sem varð árið 2011. Það gos var stórt.

Magnús Tumi bendir á að þá hafi aðeins klukkustundar fyrirvari verið á undan gosinu.

Grímsvötn eru langvirkasta eldstöð landsins. Mynd úr safni.
Grímsvötn eru langvirkasta eldstöð landsins. Mynd úr safni. mbl.is/RAX

Allar forsendur fyrir sprengigosi

Magnús segir allar forsendur vera fyrir því að gos hefjist á næstunni. Aftur á móti sé það ekki staðfest hvort eða hvenær það muni gjósa.

Gos við Grímsvötn yrði sprengigos sem myndi raska flugumferð, að sögn Magnúsar.

„Merkin eru öll að koma fram. Það er ýmislegt sem bendir til þess að það styttist í gos. En hver sá tími er, við getum ekki slegið neinu föstu um það,“ segir Magnús Tumi, sem aðspurður kveðst ekki geta svarað hvort líklegra sé að það gjósi á næstu dögum, vikum eða mánuðum.

„Við þurfum að hafa vakandi auga yfir því, þar sem að Grímsvötn eru að síga. Þess vegna eru auknar líkur að það verði gos á næstu dögum.“

Gul­ur og aft­ur grænn

Stærð gossins árið 2011 kom á óvart, enda var þensl­an þá álíka mik­il og fyr­ir gosið árið 2004.

Flug­litakóðinn fyr­ir Grím­svötn var færður upp í gul­an fyrr í mánuðinum, eft­ir að vart varð við hrinu lít­illa skjálfta við eld­stöðina.

Kóðinn var færður niður í græn­an degi síðar, eða föstu­dag­inn 5. janú­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert