Landgangur settur niður: Telja vatnið 13 metra djúpt

Búið er að koma fyrir landgangi við sprunguna.
Búið er að koma fyrir landgangi við sprunguna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeir björgunarmenn sem taka þátt í leitinni að manninum sem féll ofan í sprungu í Grindavík í gærmorgun þurfa ekki lengur að notast við körfu til að síga ofan í sprunguna.

Slökkviliðsstjórinn í Grindavík segir við mbl.is að búið sé að koma fyrir landgangi, sem sóttur var á bryggjuna, og nota björgunarmenn hann til að komast niður í sprunguna, tveir í einu.

Eins og fram hefur komið er vatn neðst í sprungunni.

Talið er að vatnið sé um það bil 13 metrar að dýpt og hefur kafbátadrónum verið komið fyrir í grunnvatninu sem sætir flóðs og fjöru. Það er tærara í flóði en gruggugra í fjöru að sögn slökkviliðsstjórans en vatnið nær niður fyrir sjávarmál.

Björgunaraðilar að störfum í Grindavík í morgun.
Björgunaraðilar að störfum í Grindavík í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

20 hlöss af sandi og grjóti færð úr sprungunni

Í gær fluttu vörubílar hátt í 20 hlöss af sandi og grjóti úr sprungunni til að koma í veg fyrir hrun og sú ákvörðun að koma fyrir landgangi er hluti af þeirri aðgerð.

Einnig hefur brún sprungunnar verið fóðruð með neti til að koma í veg fyrir hrun og bæta aðgengi að henni.

Um 70 björgunarmenn taka þátt í leitinni að manninum sem …
Um 70 björgunarmenn taka þátt í leitinni að manninum sem féll ofan í sprungu í Grindavík í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðstæður mjög erfiðar

Leitin að manninum hefur enn engan árangur borið en leit hefur staðið yfir sleitulaust frá því um hádegisbilið í gær.

Aðstæður eru mjög erfiðar en þröngt er í sprungunni og erfitt um vik fyrir björgunarmenn en fyllsta öryggis þeirra er gætt að sögn slökkviliðsstjórans, Einars Sveins Jónssonar.

Vinna stendur yfir við að koma fyrir öðru tjaldi á svæðinu til að geyma búnað. Um 70 viðbragðsaðilar taka þátt í björgunarstarfinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert