Sólarhringur frá slysinu: Fresta allri fyllingarvinnu

Frá aðgerðum í dag. Leitin að manninum sem féll ofan …
Frá aðgerðum í dag. Leitin að manninum sem féll ofan í sprungu í Grindavík í gærmorgun hefur enn ekki borið árangur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að allri vinnu við að fylla í sprungur í Grindavíkurbæ hafi verið frestað fram yfir helgina vegna slyssins í gær þegar maður féll ofan í sprungu.

Úlfar segir í samtali við mbl.is að þessi ákvörðun hafi verið tekin á fundi í morgun en leitin að manninum sem féll ofan í sprunguna hefur enn ekki borið árangur.

Hún hefur staðið yfir í alla nótt en um sólarhringur er frá því tilkynnt var um hvarf mannsins.

„Við áttum fund í morgun varðandi þessa vinnu sem hefur verið í gangi undanfarnar vikur – að tryggja öryggi og fylla upp í sprungur, og í ljósi atburða gærdagsins og yfirstandandi leitar að manninum var sú ákvörðun tekin að allri vinnu verði frestað fram yfir helgi,“ segir Úlfar.

Bætir hann við að fundað verði með verktökum á svæðinu á þriðjudaginn.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grindavík er hættulegur staður

Úlfar segir að engin breyting verði á viðveru fólks í bænum. Þeir séu fáir sem dvelji í bænum.

Sprungur séu í bænum sem eru afgirtar en það sé ýmislegt ógert í þeim efnum.

„Grindavík er hættulegur staður eins og margoft hefur komið fram. Það eru allir sem vinna og dvelja í bænum meðvitaðir um það,“ segir Úlfar.

Allt kapp sé nú lagt á að finna manninn og björgunarstarf haldi áfram á fullum krafti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka