Vilji sópa slæmri fjárhagsstöðu undir teppið

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, skýtur föstum skotum að …
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, skýtur föstum skotum að Degi B. Eggertssyni,oddvita Samfylkingarinnar og fráfarandi borgarstjóra. Samsett mynd/mbl.is/Sigurður Bogi/Kristinn Magnússon

Reykjavíkurborg uppfyllir ekki öll lágmarksviðmið eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga. Eftirlitsnefndin hefur yfirfarið ársreikning borgarinnar fyrir árið 2022.

Bréf þess efnis barst borgarstjórn Reykjavíkur í október en var kynnt í borgarráði í dag. Sambærilegt bréf barst Reykjavíkurborg í febrúar á síðasta ári.

„Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2022 uppfyllir sveitarfélagið ekki öll lágmarksviðmið eftirlitsnefndar vegna rekstrar fyrir A-hluta. [...] Viðmiðin byggja á lágmarkskröfu til að standast jafnvægis- og skuldareglu sveitarfélaga,“ eins og segir í bréfinu til borgarinnar.

Drógu bréfið fram í umræðuna

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni segir bréfið hafa borist í október en ekki verið kynnt í borgarráði fyrr en í dag, þremur mánuðum síðar.

Fyrra bréfið barst borginni í febrúar og var ekki tekið til umfjöllunar fyrr en í maí, einmitt þremur mánuðum síðar.

„Þetta finnst okkur ergilegt, sitjandi í borgarráði.“

Hildur segir svo frá að fyrra bréf eftirlitsnefndar hafi í raun ekki verið tekið fyrir fyrr en Sjálfstæðismenn hafi dregið það fram í kjölfar þess að Árborg kynnti aðgerðir sínar eftir bréfið sem þeim barst.

„Það voru um 20 sveitarfélög sem fengu bréfið í febrúar en örfá þeirra, teljandi á fingrum annarrar handar, féllu á svo mörgum mælikvörðum eins og Reykjavíkurborg gerði.

Áfram fellur borgin á mörgum viðmiðum eftirlitsnefndarinnar. Þannig höfum við áhyggjur af því að borgin vilji sópa þessu undir teppið, það er svolítið svoleiðis.

Þetta er auðvitað bara birtingarmynd af þessari slæmu fjárhagsstöðu borgarinnar og því hvernig meirihlutinn er svolítið ábyrgðarlaus í málinu og vill svolítið halda áfram með bundið fyrir augun,“ segir Hildur.

Myndrit sem borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokks birti í tilkynningu í nóvember sýnir …
Myndrit sem borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokks birti í tilkynningu í nóvember sýnir hækkandi launa- og rekstrarkostnað borgarinnar. Myndrit/Sjálfstæðisflokkurinn

Slæm fjárhagsstaða birtist í þjónustunni

Hún kveður stöðuna mjög alvarlega en segir að auðvitað eigi margir erfitt með að ná utan um hvað þetta allt saman þýðir. Hún segir birtingarmyndina sjást í þjónustunni í Reykjavík.

„Við sjáum hvernig skólahúsnæði er að mygla, hvað leikskólabiðlistar eru langir, lokunardagar eru margir, hversu illa sorphirða hefur gengið og ég get talið áfram. Þetta er auðvitað bara birtingarmynd af slæmum rekstri. Vandinn liggur í stækkandi stjórnkerfi og mikilli starfsmannafjölgun þar sem útgjöld aukast ár frá ári,“ segir hún og heldur áfram.

Skuldir hafa safnast upp á ógnarhraða í valdatíð Dags eins …
Skuldir hafa safnast upp á ógnarhraða í valdatíð Dags eins og myndritið sýnir. Myndrit/Sjálfstæðisflokkurinn

Ríflega 600.000 króna aukin árleg skattbyrði á íbúa

„Ef við skoðum borgarstjóratíð Dags B. Eggertssonar, sjáum við hvernig skattlagning á hvern íbúa hefur aukist að raunvirði, það er mjög áhugavert að líta á það.“

Hildur segir launa- og rekstrarkostnað hafa vaxið gríðarlega á tímabilinu samhliða því að skatttekjur hafi aukist. Þá hafi skuldir safnast upp á ógnarhraða.

„Í samhengi við íbúaþróun má sjá að laun og launatengd gjöld hjá Reykjavíkurborg hafa aukist um 46% á hvern íbúa í borgarstjóratíð Dags, á föstu verðlagi.“

Haft er eftir Hildi í tilkynningu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins síðan í nóvember í tilefni oddvitaumræða í borgarstjórn um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024 og fjármálastefnu borgarinnar fyrir tímabilið 2024 til 2028 að skattbyrði á hvern starfandi borgarbúa hafi aukist um 22% á 10 ára valdatíð Dags.

Myndritið sýnir að skattbyrði á hvern starfandi borgarbúa hafi aukist …
Myndritið sýnir að skattbyrði á hvern starfandi borgarbúa hafi aukist um 22% á 10 ára valdatíð Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Myndrit/Sjálfstæðisflokkurinn

„Fyrir meðalheimili með tveimur fyrirvinnum samsvarar það 627 þúsund króna aukinni skattbyrði árlega. Þá hafa skuldir á hvern íbúa aukist um 91% yfir sama tímabil,“ eins og segir í tilkynningunni.

Hildur segir Sjálfstæðismenn hafa bent á þetta um árabil og segir að nú sé að sannast, það sem flokkurinn hefur alltaf sagt en alltaf hafi verið sagt að sé bara pólitísk uppþot hjá Sjálfstæðisflokknum, að sé auðvitað raunveruleikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert