„Erum að senda menn inn í lífshættulegar aðstæður“

Frá aðgerðum við sprunguna í Grindavík í dag, 12. janúar.
Frá aðgerðum við sprunguna í Grindavík í dag, 12. janúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjálmar Hallgrímsson, aðgerðastjóri lögreglunnar á Suðurnesjum, segir að aðstæður við björgunaraðgerðir í Grindavík, þar sem leitað er að manni sem féll ofan í sprungu á miðvikudag, séu fordæmalausar.

Leit heldur áfram í dag en tryggja verði öryggi björgunarfólks á vettvangi því aðstæðurnar eru lífshættulegar

„Við gerðum hlé á leit í nótt og núna hófum við leit aftur í morgun. En staðan er sú að við erum alltaf að senda menn inn í lífshættulegar aðstæður, og þá gengur allt mun hægar fyrir sig,“ segir Hjálmar í samtali við mbl.is.

Hjálmar Hallgrímsson er aðgerðastjóri lögreglunnar á vettvangi.
Hjálmar Hallgrímsson er aðgerðastjóri lögreglunnar á vettvangi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki gert ráð fyrir öðru en að halda áfram

„Við verðum að tryggja öryggi þessara manna eins og unnt er. Þannig að þetta tekur lengri tíma. Við erum að taka myndir og ganga frá og það er ákveðin öryggisvinna sem fer í gang, en við höldum áfram inn í daginn.“

Í gærkvöldi hrundi efni inni í sprungunni þegar menn voru við vinnu og af þeim sökum var ákveðið að gera hlé á leitinni til að meta aðstæður. „Það var gert í morgun og talin ástæða til að halda áfram en að gera öryggisráðstafanir umfram það sem þegar hefur verið gert.“

Hjálmar segir að ekki verði gert ráð fyrir öðru en að halda leitinni áfram.

Frá björgunaraðgerðum í Grindavík.
Frá björgunaraðgerðum í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gerist hægt

„Við erum að gera allt sem við getum til að halda leit áfram. Á meðan við komumst eitthvað áfram þá er það gott en þetta mun gerast mjög hægt.“

Aðspurður kveðst hann ekki hafa nákvæma tölu yfir heildarfjölda björgunarmanna á vettvangi. Reglan sé þó sú að hafa aðeins tvo menn inni við vinnu í einu því aðstæður séu mjög erfiðar og þrengsli mikil.

„Við erum með þónokkurn mannskap sem menn erum að skipta, fara inn og vinna með ferskar hendur og koma svo út.“ 

Hjálmar segir að reynt sé að skipta mönnum ört út svo þeir séu ekki lengi í þessum aðstæðum, allavega ekki mikið meira en hálftíma í senn. 

Reyna að gera þetta eins vel og unnt er

Nú sé unnið að því að moka meira frá í sprungunni auk þess að nauðsynlegt sé tryggja berg og grjót svo það skapi ekki hættu. 

„Eins og ég segi þá er þetta alveg fordæmalaust og öryggið er bara mjög ótryggt. Menn eru að reyna að gera þetta eins vel og unnt er,“ segir Hjálmar að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka