Fær milljónir frá Sinfó vegna ólögmætrar uppsagnar

Ágreiningur málsins laut að því hvort maðurinn ætti bótarétt á …
Ágreiningur málsins laut að því hvort maðurinn ætti bótarétt á hendur Sinfóníuhljómsveit Íslands á þeim grundvelli að sveitin hafi staðið ólöglega að því að segja manninum upp störfum árið 2022. mbl.is/Kristinn Magnússon

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í desember Sinfóníuhljómsveit Íslands til að greiða fyrrverandi hljóðfæraleikara 3,3 milljónir í bætur vegna ólögmætrar uppsagnar. 

Manninum var sagt upp störfum hjá Sinfóníuhljómsveitinni, m.a. vegna orðsporsáhættu sem hljómsveitin taldi fylgja því að hafa hann við störf í ljósi ásakana sem hann hafði verið borinn um kynferðisbrot.

Maðurinn höfðaði málið í desember og krafðist skaðabóta úr hendi sveitarinnar á þeim grundvelli að uppsögnin hefði verið ólögmæt.

Meint kynferðisbrot mannsins höfðu sætt rannsókn lögreglu en embætti héraðssaksóknara felldi málið niður, þar sem það sem fram hefði komið yrði ekki talið nægilegt eða líklegt til sakfellis, og embætti ríkissaksóknara staðfesti þá ákvörðun.

Ekki málefnalegt sjónarmið

Í dóminum var vísað til þess að reglur stjórnsýsluréttar gildi um starfsemi hljómsveitarinnar. Að mati dómsins taldist það ekki vera málefnalegt sjónarmið í skilningi réttmætisreglu stjórnsýsluréttar að byggja ákvörðun um jafn íþyngjandi ráðstöfun og uppsögn mannsins á orðsporsáhættu sem stafaði af óstaðfestum ásökunum á hendur honum.

Dómurinn féllst því á kröfur mannsins um skaðabætur, sem ákvarðaðar voru að álitum, vegna fjártjóns og miska sem uppsögnin hefði valdið honum.

Barst bréf frá fyrrverandi eiginkonu mannsins

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 13. desember, að aðdraganda uppsagnarinnar megi rekja til bréfs til hljómsveitarinnar árið 2022, sem var frá fyrrverandi eiginkonu mannsins, sem er jafnframt starfsmaður Sinfóníuhljómsveitarinnar. Þar lýsti fyrrverandi eiginkona meintu einelti mannsins gagnvart sér á vinnustaðnum og meintri kynferðislegri misnotkun mannsins.

Í bréfinu er getið um ýmis gögn sem sögð eru fylgja bréfinu. Þá er þess getið að í gögnunum sé að finna upplýsingar um að ónefndur aðili hafi orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hans hálfu.

Fram kemur í bréfinu að bréfritari hafi áður upplýst stjórnendur sveitarinnar um stöðu sína í vinnunni og að starfsmannamálið hafi staðið yfir lengi. Bréfritari gagnrýndi viðbrögð sveitarinnar við umræddum upplýsingum og spurði ýmissa spurninga þar að lútandi.

Í kjölfarið fór maðurinn í leyfi frá störfum. 

Rannsókn hófst árið 2015

Kæra barst á hendur manninum árið 2015 og þá hófst rannsókn lögreglu á meintum brotum. Árið 2016 var manninum tilkynnt að málið hefði verið fellt niður, sem fyrr segir. 

Þá segir, að samkvæmt fundargerðum frá stjórnarfundum Sinfóníuhljómsveitarinnar þá komi fram að mál mannsins hafi komið átta sinnum til umfjöllunar eftir að bréfið barst sveitinni og áður en manninum var sagt upp störfum.

„Þá aflaði stefnda álitsgerða tveggja ráðgjafarfyrirtækja, B og C, varðandi mögulegar leiðir og áhrif þess að hafa stefnanda áfram við störf. Í álitsgerðum beggja ráðgjafarfyrirtækjanna kom fram að í því væri falin umtalsverð orðsporsáhætta fyrir stefndu að hafa stefnanda áfram við störf og því gætu fylgt neikvæðar fjárhagslegar afleiðingar, enda rekstur stefndu háður tekjum af miðasölu og styrkjum. Þá kom fram í úttekt B að því fylgdu neikvæð áhrif á starfsanda hjá stefndu að bæði stefnandi og fyrrverandi eiginkona hans væru þar við störf.“

Fallist á að uppsögnin hafi verið ólögmæt

Í niðurstöðu héraðsdóms segir, að þó að það megi fallast á það með Sinfóníuhljómsveitinni, að virtum gögnum málsins, að fyrir hendi hafi verið orðsporsáhætta tengd störfum mannsins hjá sveitinni vegna umræddra ásakana, verði ekki fram hjá því litið að ekki hafi legið fyrir lögfull sönnun um að ásakanir á hendur manninum ættu við rök að styðjast.

„Að mati dómsins telst það ekki hafa verið málefnalegt sjónarmið í skilningi réttmætisreglu stjórnsýsluréttar að byggja ákvörðun um jafn íþyngjandi ráðstöfun og uppsögn stefnanda á orðsporsáhættu sem stafaði af óstaðfestum ásökunum á hendur honum. Því verður fallist á það með stefnanda að uppsögnin hafi verið ólögmæt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert