Hætta að leita: „Allt gert sem hægt var að gera“

Ekki var lengur hægt að trygga öryggi björgunarfólks í sprungunni …
Ekki var lengur hægt að trygga öryggi björgunarfólks í sprungunni og leitinni þar af leiðandi hætt. Ljósmynd/Landsbjörg

Leitinni að manninum sem var talinn hafa fallið í sprungu í Grindavík hefur verið hætt. Viðbragðsaðilar gerðu allt sem hægt var að gera innan hættumarka, að mati Boga Adolfssonar, formanns björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík.

Ekki var talið for­svar­an­legt að stefna líf­um leit­ar­manna í hættu. Bogi segir að engin frekari ummerki hafi fundist af manninum.

Aðstæður voru gríðarlega erfiðar.
Aðstæður voru gríðarlega erfiðar. Ljósmynd/Landsbjörg

„Menn voru orðnir smeykir um grjóthrun,“ segir Bogi en leitinni var frestað í dag vegna hættu á grjóthruni. „Þeim leið bara ekki vel þarna niðri með þetta og maður þarf bara að bera virðingu fyrir því.“

Hann segir að það hafi verið sameiginleg ákvörðun viðbragðsaðila að stöðva leitirnar. „Það er alltaf hægt að halda endalaust áfram en á einhverjum tímapunkti er þetta bara orðið hættulegt fyrir mannskapinn,“ segir Bogi.

Ekki var talið æskilegt að halda leitinni áfram þar sem …
Ekki var talið æskilegt að halda leitinni áfram þar sem hún stefndi björgunarfólki í hættu. Ljósmynd/Landsbjörg

Lagðist ekki vel í björgunarfólk

Leitaraðgerðir af þessum toga eru fordæmalausar, samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg. 

„Þetta lagðist ekkert vel í fólk en það reyndu allir að gera það sem þeir gátu. Fyrir mitt leyti er ég alveg orkulaus eftir að maður veit að þessu var hætt.“

Þrátt fyrir allt vill Bogi meina að leitaraðgerðirnar hafi verið unnar í frábæru samstarfi við lögreglu og aðrar björgunarsveitir, ekki síst þá verktaka sem gátu hjálpað.

„Að mínu mati var allt gert sem hægt var að gera, eins og hættumörkin leyfðu,“ segir Bogi að lokum.

Leitin stóð yfir nánast óslitin í rúmlega tvo sólarhringa.
Leitin stóð yfir nánast óslitin í rúmlega tvo sólarhringa. Ljósmynd/Landsbjörg

„Því miður er niðurstaðan þessi“

Landsbjörg sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í kvöld vegna þess að leitinni var lokið:

Eins og komið hefur fram hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum tekið þá ákvörðun að hætta leit að manninum sem féll í sprungu í Grindavík á miðvikudagsmorgun.

Slysavarnafélagið Landsbjörg sendir aðstandendum hans dýpstu samúðarkveðjur. Það er björgunaraðilum afar þungbært að þurfa að hverfa frá leitinni án árangurs.

Þessi leit á sér engin fordæmi og var afar krefjandi. Samstarf björgunaraðila allra, björgunarsveita, slökkviliðs Grindavíkur og Höfuðborgarsvæðisins, sérsveitar lögreglu og lögreglunnar á Suðurnesjum gekk afar vel, en því miður er niðurstaðan þessi. Hugur þeirra er hjá aðstandendum.

Aðstæður voru mjög krefjandi eins og þessi mynd ber með …
Aðstæður voru mjög krefjandi eins og þessi mynd ber með sér. Ljósmynd/Landsbjörg

Þung spor að þurfa að leggja niður störf

Björgunarsveitin Þorbjörn sendi einnig frá sér yfirlýsingu á Facebook:

Ljósmynd/Landsbjörg

Þá hefur björgunarsveitin Suðurnes einnig sent frá sér yfirlýsingu:


 

Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert