Leit að manninum, sem féll ofan í sprungu í Grindavík á miðvikudag, liggur niðri og hefur legið niðri síðan á tólfta tímanum í gærkvöldi.
Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is fyrir skömmu.
„Á tólfta tímanum í gærkvöld þá stöðvuðum við leitina af þeirri ástæðu að ekki var hægt að tryggja öryggi leitarmanna ofan í sprungunni.
Það var grjóthrun niðri í sprungunni og af þeim sökum drógum við okkar mannskap í hlé,“ segir Úlfar og bætir því við að staðan verði endurmetin á stöðufundi aðgerðarstjórnar og vettvangsstjórnar klukkan 9.
Úlfar segir aðspurður ómögulegt að segja hver gangur leitarinnar sé.
„Við erum bara í ákveðnum aðgerðum þarna niðri og þær í sjálfu sér hafa gengið vel miðað við aðstæður en af öryggisástæðum þurftum við að gera hlé á leitaraðgerðum á tólfta tímanum í gærkvöldi.“