Rakaskemmdir og mygla í Austurbæjarskóla

Rakaskemmdir og mygla hafa nýverið greinst í skólahúsnæði Austurbæjarskóla
Rakaskemmdir og mygla hafa nýverið greinst í skólahúsnæði Austurbæjarskóla mbl.is

Rakaskemmdir og mygla hafa fundist á afmörkuðum svæðum í skólahúsnæði Austurbæjarskóla. Þetta kom fram í bréfi sem skólastjóri sendi á foreldra í gær.

Verkfræðistofan Mannvit hefur nýlokið innviðaúttekt í skólanum eftir að athugasemdir komu fram um að innivist og loftgæðum í skólanum væri ábótavant.

Í bréfi skólastjóra kemur fram að lekataumar hafi greinst í kringum þakglugga og eins á afmörkuðu svæði í kjallara tengt lögnum undir botnplötu. Sýni sem tekin voru þar leiddu í ljós myglu. Hún greindist bæði í textílstofu og skrifstofu húsvarðar sem eru í kjallara hússins.

Framkvæmdir næstu þrjá mánuði

Kristín Jóhannesdóttir, skólastjóri Austurbæjarskóla, sagði í samtali við mbl.is að framkvæmdir væru þegar hafnar til að bregðast við þessu.

Í bréfi hennar kemur fram að finna þurfi leka á þaki og gera viðeigandi lagfæringar. Sömuleiðis þurfi að laga lagnakerfi í kjallara. Laus búnaður verður þrifinn eftir réttum ferlum en öllu rakaskemmdu byggingarefni verður hent.

Ekki verður notast við viðkomandi rými á framkvæmdatíma sem er ætlaður um þrír mánuðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert