Rufu áratuga hefð – Styðja Hjálmar

Kári Jónasson ræðir við Hjálmar Jónsson á Kjarvalsstöðum.
Kári Jónasson ræðir við Hjálmar Jónsson á Kjarvalsstöðum. mbl.is/Árni Sæberg

Hópur eldri blaðamanna í Blaðamannafélagi Íslands, BÍ, ákvað að rjúfa ríflega 20 ára hefð og hittast ekki í vikulegu kaffi sínu á föstudögum í húsnæði félagsins í Síðumúla, heldur á Kjarvalsstöðum.

Með því vildi hópurinn hittast á hlutlausum stað og fá botn í atburði síðustu daga, að sögn Jóhannesar Reykdal blaðamanns.

Hjálmari Jónssyni, fráfarandi framkvæmdastjóra BÍ, var sagt upp störfum fyrr í vikunni. Í kjölfarið sakaði hann formann félagsins, Sigríði Dögg Auðunsdóttur, um að vera ekki með hreinan skjöld í fjármálum og að hún væri ekki starfi sínu vaxin.

Hópurinn fór yfir málin á Kjarvalsstöðum.
Hópurinn fór yfir málin á Kjarvalsstöðum. mbl.is/Árni Sæberg

Forystan þarf að vera með hreinan skjöld

„Í ljósi þessarar uppákomu núna vildum við hittast á hlutlausum vettvangi og fá botn í það sem var að gerast,” segir Jóhannes og bætir við: „Við erum öll sammála um að forysta félags eins og Blaðamannafélagsins, og ég tala nú ekki um formanninn, þarf að vera með hreinan skjöld. Að okkar mati virðast það líta út fyrir að svo sé ekki í þessu tilfelli,” segir hann.

Hópurinn vildi í leiðinni sýna Hjálmari stuðning í verki, en honum var boðið í kaffið á Kjarvalsstöðum.

„Við erum sammála því að hann hefur reynst okkur vel. Við vildum heyra hans sjónarmið. Eftir þann málflutning þá erum við örugglega flest öll sammála því að styðja hann í þessu, nema eitthvað annað komi í ljós. Fyrir okkur er málið einfalt, formaður þarf að hafa hreinan skjöld,” segir Jóhannes jafnframt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert