Slökkviliðið fær vilyrði fyrir lóð á BSÍ-reit

BSÍ reiturinn við Hringbraut í Reykjavík. Að sögn SHS myndi …
BSÍ reiturinn við Hringbraut í Reykjavík. Að sögn SHS myndi útkallsstöð á þessum reit bæta þjónustu við Seltjarnarnes. Kort/Map.is

Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt tillögu borgarstjóra um að ganga til samninga við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) um að byggja við stöðina sem slökkviliðið leigir af borginni á Kjalarnesi.

Starfsemi SHS flyttist þá úr Skógarhlíð í nýja björgunarmiðstöð milli Klepps og Holtagarða og á BSÍ-reit í Reykjavík, en samþykkt var að að gefa út vilyrði til SHS fyrir lóð á BSÍ-reitnum.

Þetta kemur fram í fundargerð.

Lögðu til fjölda og staðsetningar stöðva

Vísað er til bréfs stjórnar SHS frá 18. desember, þar sem fjallað er um starfshóp um húsnæðismál slökkviliðsins, sem starfaði í umboði SHS að því að þarfagreina og leggja til fjölda og staðsetningar slökkvistöðva á höfuðborgarsvæðinu með tilliti til viðbragðstíma og þjónustustigs SHS.

Starfshópurinn skilaði tillögum og framkvæmdaáætlun í greinargerð til SHS í nóvember. Stjórn SHS lagði til í bréfi sínu til borgarráðs að aðildarsveitarfélög slökkviliðsins samþykktu að unnið yrði eftir framgangi framkvæmdaáætlunar í samræmi við tillögur hópsins en hún skiptist í þrjá áfanga yfir tímabilið 2024-2031.

Uppbyggingin muni stytta viðbragðstíma

„Þær aðgerðir sem snúa að Reykjavík eru þær að ganga til samninga við SHS um að byggja við slökkvistöðina sem slökkviliðið leigir af borginni á Kjalarnesi og að starfsemi SHS flytjist úr Skógarhlíð í nýja björgunarmiðstöð milli Klepps og Holtagarða og á BSÍ reit í Reykjavík. Því er lagt til að borgarráð samþykki að gefa út vilyrði til SHS fyrir lóð á BSÍ reit,“ segir í fundargerðinni. 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar lögðu fram svohljóðandi bókun: 

„Meirihlutinn fagnar tillögum stjórnar Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu (SHS) um staðsetningar slökkvistöðva á höfuðborgarsvæðinu. Tillögurnar taka mið af viðbragðstíma og þjónustustigi SHS og í þeim endurspeglast skýr framtíðarsýn. Með sex útkallsstöðvum verður nær helmings fjölgun í þeim hópi sem nýtur þjónustu innan 7,5 mínútna aksturstíma og þeim sem verða utan 10 mínútna aksturstíma fækkar um ⅔. Uppbyggingin mun því stytta viðbragðstíma og auka öryggi á höfuðborgarsvæðinu.“

Hugi jafnframt að frekari forgangi Strætó í umferðinni

Þá kemur fram í fundargerðinni, sem var enn fremur samþykkt, að því sé beint til umhverfis- og skipulagssviðs að huga að frekari forgangi Strætó í umferðinni til viðbótar við fyrirhugaðar forgangsreinar Borgarlínu, sbr. ábendingu starfshópsins, en greining hans dragi fram mikilvægi hvors tveggja.

Jafnframt sé lagt til að fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að gera tillögu að fjármögnun fyrir árið 2025 samhliða fjárhagsáætlunargerð næsta árs og langtímaáætlun í samræmi við tillögurnar. Ekki sé gert ráð fyrir auknum útgjöldum sveitarfélaganna á árinu 2024. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert