Þokkalegt hlaup sem nær hámarki á sunnudag

Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls.
Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls. mbl.is/Ragnar Axelsson

Engir skjálftar hafa mælst eftir miðnætti nærri Grímsvötnum. Hlaupið er enn í gangi og mun ná hámarki í Grímsvötnum á sunnudag.

Þetta segir Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Að sögn Bjarka mun hlaupið ná hámarki á Skeiðarársandi eða í Gígjukvísl tveimur dögum síðar. Hlaupið er um 1.000 rúmmetrar á sekúndu sem Bjarki segir ekki risastórt en alveg þokkalegt. Segir hann ekki talið að hlaupið muni hafa áhrif á innviði.

Veðurstofan fylgist vel með skjálftavirkni á svæðinu en hlaupið getur leitt til eldgoss. Stærsta ógnin segir Bjarki að snúi að eldgosi og ösku sem geti truflað flugumferð.

„Síðustu tvö hlaup, árin 2021 og 2022 hrundu ekki af stað eldgosi en síðasta gos varð árið 2011,“ segir Bjarki að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert