Gat ekki lent í Reykjavík vegna þoku

Flugvél þurfti að lenda á Keflavíkurflugvelli vegna mikillar þokur í …
Flugvél þurfti að lenda á Keflavíkurflugvelli vegna mikillar þokur í Reykjavík mbl.is/Sigurður Bogi

Farþegaflugvél Icelandair í áætlunarflugi frá Egilsstöðum þurfti að lenda á Keflavíkurflugvelli í stað Reykjavíkurflugvallar vegna mikillar þoku í Reykjavík. Ekki er útilokað að fleiri flugvélar í innanlandsflugi þurfi að lenda á Keflavíkurflugvelli.

Þetta staðfestir Sigrún Björk Jak­obs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri inn­an­lands­flug­valla hjá Isavia, í samtali við mbl.is.

„Það var bara lágskyggni á braut en það hafa vélar lent í dag, bæði sjúkraflug og áætlunarflug frá Ísafirði og Akureyri,” segir Sigrún.

Skyggnið óvenju slæmt

Sigrún segir að skyggnið hafi verið óvenju slæmt núna er flugvélin var að koma inn til lendingar og er þetta eina tilfellið í dag þar sem ekki hefur verið hægt að lenda á Reykjavíkurflugvelli. Hún útilokar þó ekki að fleiri flug þurfi að lenda á Keflavíkurflugvelli.

„Það virðist nú lítið vera að létta til. Ef að það opnast gluggar þá koma þær niður en annars verður bara að vinna úr þessu eins og hægt er,“ segir Sigrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert