Ríkisstjórnin hefur ákveðið að umbylta því kerfi sem byggt hefur verið upp í kringum hjúkrunarheimili í landinu. Sérhæfð fyrirtæki verða kölluð að borðinu til að tryggja fjölgun rýma og rekstur þess húsnæðis sem hjúkrunarheimili eru rekin í. Sveitarfélögin verða leyst undan skyldum sínum um sama efni og framkvæmdasjóður aldraðra verður lagður niður. Samhliða þessu mun fara fram endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga sem hingað til hafa borið 15% af kostnaði við uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimila í landinu.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að leita hafi þurft nýrra leiða við að tryggja uppbyggingu kerfisins í hjúkrunarþjónustu. Fjölga þurfi hjúkrunarrýmum um tæplega 1.600 á næstu 16 árum og það jafngildi því að eitt 94 rýma heimili verði opnað á hverju ári fram til ársins 2040.
Í skýrslu sem unnin var að beiðni heilbrigðisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis kemur fram að stofnkostnaður við þessi rými muni nema um 104 milljörðum króna að núvirði. Willum segir í viðtali í Spursmálum að þetta veki spurningar um það hversu sjálfbær ríkisfjármálin eru og að nýta þurfi takmarkaða fjármuni sem allra best til að tryggja megi hina mikilvægu þjónustu. Sérhæfð fyrirtæki þurfi að koma að þessu risavaxna verkefni.
Hann upplýsir sömuleiðis að ráðuneyti hans hafi nú þegar ráðist í markaðskönnun sem gefi til kynna að hægt verði að stórfjölga rýmum fljótt. „Við megum engan tíma missa,“ segir hann og ítrekar að langir biðlistar séu eftir hjúkrunarrými og að það hafi ekki síst áhrif á fráflæðisvanda Landspítalans.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.