„Alvarlegasta gos síðan í Vestmannaeyjum“

Eldgosið hófst rétt fyrir klukkan 8 í morgun.
Eldgosið hófst rétt fyrir klukkan 8 í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, segir við mbl.is að mikil aflögun hafi átt sér stað í Grindavík í nótt og í morgun og margar nýjar sprungur hafi myndast í bænum.

Spurður út í stöðuna núna um hádegisbilið segir Víðir:

„Varnargarðarnir við Grindavík beina megninu af hraunstraumnum frá því að renna í áttina að bænum þannig að þeir eru að hjálpa til og tefja framganginn. Það sem er verið að gera núna er að loka gatinu í varnargarðinum sem var við Grindavíkurveginn og á sama tíma erum við að fergja og setja yfir vatnsveitu- og rafmagnskerfin sem liggja utan í Grindavíkurveginum inn í bæinn,“ segir Víðir.

Rétt eftir að mbl.is ræddi við Víði myndaðist ný gossprunga nær Grindavík. „Við höfum áhyggjur af þessari nýju sprungu sem er einhverja tugi metra frá byggðinni nyrst í bænum. Það gýs enn úr henni og hraun er farið að renna úr sprungunni í allar áttir,“ sagði Víðir í samtali við RÚV.

Unnið er að því að fylla upp í gatið á …
Unnið er að því að fylla upp í gatið á varnargarðinum við Grindavíkurveginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víðir segir að gossprungan hafi farið í gegnum varnargarðinn og það renni hraun sunnan megin við hann sem og til vesturs og suðurs. Hann segir að það renni hægar enda minna magn á ferðinni. Víðir segir að megnið af hrauninu renni til norðurs og í áttina að Grindavíkurveginum.

Spurður hvort minni líkur séu á að hraunið nái í byggð heldur en menn héldu fyrr í morgun segir hann:

„Það er erfitt að segja til um það. Það eru margir óvissuþættir og sá stærsti er hvar gosið muni draga sig saman í færri gíga eins og gerist alltaf. Það mun stýra því hvar hraunrennslið verður áfram næstu dagana.“

Víðir segir að menn hafi tekið eftir talsverðri gliðnun í bænum og nýjar sprungur hafi myndast.

Mikil gliðnum og nýjar sprungur hafa myndast í bænum

„Við sjáum greinilega nýjar sprungur og við höfum heyrt það frá veitufyrirtækjunum að lagnir hafa farið í sundur. Við sjáum greinileg merki um stækkanir á sprungum og að nýjar hafi myndast. Það var töluverð aflögun í bænum í nótt í þessum látum sem áttu sér stað áður en gosið hófst,“ segir Víðir.

Það tókst að koma öllum vinnuvélum frá varnargörðunum og segir Víðir að sú vinna hafi gengið vel.

„Tækin voru sem betur fer uppi á varnargarðinum og þau eru öll í fullri vinnu í varnaraðgerðum í kringum lagnirnar og að framlengja varnargarðinn yfir Grindavíkurveginn. Verkið við að fjarlægja vinnutækin var vel undirbúið og þyrla gæslunnar var á svæðinu til að fylgjast með,“ segir Víðir.

Almannavarnir vilja brýna fyrir fólki að vera ekki að reyna að nálgast gosstöðvarnar með einhverjum hætti.

„Þetta er alvarlegasta gos sem hefur orðið á Íslandi síðan það gaus í Vestmannaeyjum 1973 og eins og staðan er í Grindavík núna er það stórhættulegur staður. Við erum ekki með neinn mannskap þar og það verða engar aðgerðir inni í bænum meðan staðan er með þessum hætti.“

Gosmökkurinn sést vel.
Gosmökkurinn sést vel. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert