„Alvarlegasta gos síðan í Vestmannaeyjum“

Eldgosið hófst rétt fyrir klukkan 8 í morgun.
Eldgosið hófst rétt fyrir klukkan 8 í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víðir Reyn­is­son, sviðsstjóri al­manna­varna, seg­ir við mbl.is að mik­il af­lög­un hafi átt sér stað í Grinda­vík í nótt og í morg­un og marg­ar nýj­ar sprung­ur hafi mynd­ast í bæn­um.

Spurður út í stöðuna núna um há­deg­is­bilið seg­ir Víðir:

„Varn­argarðarn­ir við Grinda­vík beina megn­inu af hraun­straumn­um frá því að renna í átt­ina að bæn­um þannig að þeir eru að hjálpa til og tefja fram­gang­inn. Það sem er verið að gera núna er að loka gat­inu í varn­argarðinum sem var við Grinda­vík­ur­veg­inn og á sama tíma erum við að fergja og setja yfir vatns­veitu- og raf­magns­kerf­in sem liggja utan í Grinda­vík­ur­veg­in­um inn í bæ­inn,“ seg­ir Víðir.

Rétt eft­ir að mbl.is ræddi við Víði myndaðist ný gossprunga nær Grinda­vík. „Við höf­um áhyggj­ur af þess­ari nýju sprungu sem er ein­hverja tugi metra frá byggðinni nyrst í bæn­um. Það gýs enn úr henni og hraun er farið að renna úr sprung­unni í all­ar átt­ir,“ sagði Víðir í sam­tali við RÚV.

Unnið er að því að fylla upp í gatið á …
Unnið er að því að fylla upp í gatið á varn­argarðinum við Grinda­vík­ur­veg­inn. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Víðir seg­ir að gossprung­an hafi farið í gegn­um varn­argarðinn og það renni hraun sunn­an meg­in við hann sem og til vest­urs og suðurs. Hann seg­ir að það renni hæg­ar enda minna magn á ferðinni. Víðir seg­ir að megnið af hraun­inu renni til norðurs og í átt­ina að Grinda­vík­ur­veg­in­um.

Spurður hvort minni lík­ur séu á að hraunið nái í byggð held­ur en menn héldu fyrr í morg­un seg­ir hann:

„Það er erfitt að segja til um það. Það eru marg­ir óvissuþætt­ir og sá stærsti er hvar gosið muni draga sig sam­an í færri gíga eins og ger­ist alltaf. Það mun stýra því hvar hraun­rennslið verður áfram næstu dag­ana.“

Víðir seg­ir að menn hafi tekið eft­ir tals­verðri gliðnun í bæn­um og nýj­ar sprung­ur hafi mynd­ast.

Mik­il gliðnum og nýj­ar sprung­ur hafa mynd­ast í bæn­um

„Við sjá­um greini­lega nýj­ar sprung­ur og við höf­um heyrt það frá veitu­fyr­ir­tækj­un­um að lagn­ir hafa farið í sund­ur. Við sjá­um greini­leg merki um stækk­an­ir á sprung­um og að nýj­ar hafi mynd­ast. Það var tölu­verð af­lög­un í bæn­um í nótt í þess­um lát­um sem áttu sér stað áður en gosið hófst,“ seg­ir Víðir.

Það tókst að koma öll­um vinnu­vél­um frá varn­ar­görðunum og seg­ir Víðir að sú vinna hafi gengið vel.

„Tæk­in voru sem bet­ur fer uppi á varn­argarðinum og þau eru öll í fullri vinnu í varn­araðgerðum í kring­um lagn­irn­ar og að fram­lengja varn­argarðinn yfir Grinda­vík­ur­veg­inn. Verkið við að fjar­lægja vinnu­tæk­in var vel und­ir­búið og þyrla gæsl­unn­ar var á svæðinu til að fylgj­ast með,“ seg­ir Víðir.

Al­manna­varn­ir vilja brýna fyr­ir fólki að vera ekki að reyna að nálg­ast gosstöðvarn­ar með ein­hverj­um hætti.

„Þetta er al­var­leg­asta gos sem hef­ur orðið á Íslandi síðan það gaus í Vest­manna­eyj­um 1973 og eins og staðan er í Grinda­vík núna er það stór­hættu­leg­ur staður. Við erum ekki með neinn mann­skap þar og það verða eng­ar aðgerðir inni í bæn­um meðan staðan er með þess­um hætti.“

Gosmökkurinn sést vel.
Gos­mökk­ur­inn sést vel. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert