Aukið innflæði kviku í ganginn

Það heldur áfram að malla úr sprungunum að sögn náttúruvársérfræðings …
Það heldur áfram að malla úr sprungunum að sögn náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

GPS-gögn sýna aukið kvikuinnflæði í kvikuganginn við Grindavík og er möguleiki á að fleiri sprungur opnist í dag eða næstu daga.

Þetta segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Eldgos hófst laust fyrir klukkan átta í morgun við Grindavík. Rétt eftir klukkan 12 myndaðist svo ný sprunga við jaðar bæjarins.

Ekki hægt að útiloka að fleiri sprungur opnist

„Það heldur bara áfram að malla úr sprungunum og það er áframhaldandi skjálftavirkni. Hún er meiri við Hagafell en líka eitthvað í Grindavík,“ segir Lovísa Mjöll.

„Það er ekki hægt að útiloka að fleiri sprungur opnist. GPS gögnin sýndu okkur að það er aukið kvikuinnflæði inn í ganginn og þar með er möguleiki á að það opnist fleiri sprungur.“ 

Hún segir að ekki sé hægt að segja til um það hvenær nýjar sprungur opnist ef það gerist. Það gæti gerst í dag eða einhverja næstu daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert