„Ekkert sem hægt er að gera“

Ljósmyndari mbl.is tók þessa mynd fyrir um hálftíma síðan úr …
Ljósmyndari mbl.is tók þessa mynd fyrir um hálftíma síðan úr flugi Gæslunnar við gosstöðvarnar. Gossprungan er beggja vegna varnargarðsins. Verksmiðja ORF Líftækni sést einnig hægra megin á myndinni. mbl.is/Árni Sæberg

Berglind Rán Ólafsdóttir, forstjóri Orf líftækni, fyrirtækisins sem rekur gróðurhúsið rétt norðan við Grindavík sem er nú aðeins tugi metra frá hraunjaðrinum, segir að hún horfi bara eins og aðrir á framvindu mála og að lítið annað sé hægt að gera.

„Það er ekkert sem hægt er að gera, við horfum bara á þetta,“ segir hún við mbl.is.

„Þetta er óþægilega nálægt,“ segir hún og tekur fram að það eigi sérstaklega við fyrir íbúa Grindavíkurbæjar.

Hraunið rennur beggja vegna varnargarðsins, enda ná gígarnir suður fyrir …
Hraunið rennur beggja vegna varnargarðsins, enda ná gígarnir suður fyrir garðinn. Rétt sunnan við garðinn og vestan við núverandi hraunjaðar er gróðurhús Orf. Gróðurhúsið má sjá ógreinilega á þessu skjáskoti, en litla ljósið hægra megin á myndinni er frá því. Þarna er því aðeins um að ræða tugi upp í hundrað metra sem eru á milli gróðurhússins og hraunsins, en hraunið hefur flætt í áttina að því síðustu mínútur. Skjáskot/mbl.is

Húsið mjög illa farið

Öllum verðmætum sem hægt var að bjarga úr gróðurhúsinu hafði verið bjargað eftir jarðskjálftana í nóvember, en hún segir húsið mjög illa farið eftir skjálftana og í raun ónýtt og ekki hægt að hafa starfsemi þar.

Gossprungan frá Sundhnúkagígum nær nú suður fyrir varnargarðana sem eru norður af Grindavík og voru í smíðum og flæðir því hraun sunnan megin við þá.

Hefur það á síðustu mínútum færst nær og nær gróðurhúsinu stóra, sem og Grindavík.

Eins og sjá má á korti Veðurstofunnar er gróðurhús Orf …
Eins og sjá má á korti Veðurstofunnar er gróðurhús Orf rétt innan við varnargarðinn sem var í byggingu. Hraunsprungan er þó komin mun sunnar, eða suður fyrir garðinn og flæðir hraun beggja vegna við hann. Kort/Veðurstofa Íslands

Í kappi við tímann

Hún segir að þróunarvinna Orf fari bæði fram í Kanada og í Víkurhvarfi í Kópavogi þannig að þar hafi starfsemin gengið sinn vana gang undanfarið, en starfsemin legið niðri í gróðurhúsinu.

Einhverju af tækjum og búnaði hefur verið komið fyrir á nokkrum stöðum.

Þessa stundina reyna starfsmenn verktakafyrirtækja sem unnu að garðinum í kappi við tímann að koma vinnuvélum sem voru við garðana í burtu, en þeir eru aðeins í nokkurra tuga metra fjarlægð frá hrauninu.

Berglind Rán Ólafsdóttir, forstjóri ORF Líftækni.
Berglind Rán Ólafsdóttir, forstjóri ORF Líftækni. Samsett mynd/mbl.is/Eggert Jóhannesson/ORF Líftækni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert