Ekki hægt að útiloka eldgos í Grímsvötnum

Síðast varð eldgos í Grímsvötnum árið 2011, en það var …
Síðast varð eldgos í Grímsvötnum árið 2011, en það var ekki í tengslum við jökulhlaup þaðan. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

„Það er ekki hægt að útiloka neitt enn þá í rauninni,“ segir Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, um hvort enn megi búast við eldgosi í Grímsvötnum í kjölfar jökulhlaups þar.

Hlaupórói hefur farið dvínandi frá því að hlaupið náði hámarki seint í gærkvöldi eða nótt. Engin merki eru um eldgos eins og staðan er nú að sögn Böðvars. 

„Þetta virðist vera í einhvers konar rénun, en það er farið aðeins að lækka þarna suðið í Grímsvötnum.“

Rennsli og rafleiðni í Gígjukvísl heldur áfram að vaxa en búast má við að hlaupið nái hámarki í ánni um einum til tveimur sólarhringum seinna en í Grímsvötnum.

Skjálftinn ekki merki um gosóróa

Klukkan 15.23 mældist jarðskjálfti nærri Bárðarbungu sem var 3,4 að stærð. Spurður hvort það sé merki um gosóróa segir Böðvar svo ekki vera.

„Það gerist oft þegar að það er að tæma sig. Þá kemur svona smá suð og getur komið smá skjálfti,“ segir hann og bætir við að enginn gosórói sjáist enn.

„Við fylgjumst bara með hvort að eitthvað fleira gerist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert