Fótunum kippt undan samfélaginu

Frá Grindavík í dag.
Frá Grindavík í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir það hafa verið mikið áfall að sjá hraun flæða inn í bæinn í dag. Hann segir öryggistilfinningu Grindvíkinga ekki lengur til staðar.

„Það er mikil sorg og kvíði hjá fólki yfir þeirri stöðu sem er núna og eftir þessa atburði síðasta sólarhrings þá er staðan einhvern veginn allt önnur, fótunum er svolítið kippt undan samfélaginu og öryggistilfinningin er ekki lengur til staðar,“ segir Fannar í samtali við mbl.is.

Eldgos hófst við Grindavík laust fyrir klukkan átta í morgun. Rétt eftir klukkan 12 myndaðist svo ný sprunga við jaðar bæjarins og í kjölfarið tók hraun að flæða inn í bæinn.

„Það var áfall, sérstaklega fyrir það að varnargarðarnir sem reistir voru stóðu vel en að það skildu svo koma upp þessar gosrásir fyrir innan varnargarðinn og stefna hrauninu til Grindavíkur. Það voru mikil vonbrigði og þess vegna er ástandið svona slæmt eins og raun ber vitni.“

Styttist í hús bæjarstjórans

Að minnsta kosti þrjú hús við Efrahóp í Grindavík hafa orðið eldinum að bráð. Hús Fannars stendur við Austurhóp og er eitt þeirra sem hraun flæðir í átt að.

„Það er ekki langt í það frá hrauntungunni þannig að ef hún heldur áfram að renna inn í bæinn þá styttist í að húsið sem ég bý í verði eldinum að bráð,“ segir Fannar aðspurður.

Fannar segir það vera í algjörum forgangi að finna húsnæði fyrir þá Grindvíkinga sem ekki eru komnir með varanleg húsnæðisúrræði.

„Það eru alltof margar fjölskyldur sem eru í þeim sporum og ekki síst núna þegar búið er að rýma bæinn. Þetta er eitthvað sem allir verða að leggjast á eitt um að bæta úr sem allra fyrst.“

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óvissan verst

Atburðir dagsins hljóta að hafa mikil varanleg áhrif á bæinn?

„Já það mun taka langan tíma að vinna sig út úr þessu. Verst er þó að það er svo mikil óvissa um framhaldið og við vitum ekki hvenær þessu linnir. Á meðan svo er þá er mjög erfitt að gera ráðstafanir og áætlanir um hvenær hægt er að flytja inn í bæinn.

Við Grindvíkingar þurfum öll  að hlúa hvert að öðru og leita okkur aðstoðar til þess að sinna sálrænu hliðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert