Hraun virðist renna vestur af varnargarðinum

Hraunið rennur meðfram varnargarðinum.
Hraunið rennur meðfram varnargarðinum. Skjáskot/Vefmyndavél mbl.is

Hraun sem rennur úr sprungunni sem opnaðist við Hagafell í morgun virðist nú komið vestur fyrir varnargarðinn sem verja á Grindavík fyrir hraunflæði.

Á vefmyndavél mbl.is má sjá glóandi hraun renna til vesturs úr sprungunni meðfram varnargarðinum og svo beygja til suðurs, í átt að Grindavík, þar sem garðurinn virðist taka enda.

Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands gat ekki staðfest í samtali við mbl.is að hraunið væri komið vestur fyrir varnargarðinn.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, gat heldur ekki staðfest að hraunið væri komið vestur fyrir varnargarðana en sagði það komið „vel vestur fyrir Grindavíkurveg“.

Hægt er að fylgjast með framvindunni í vefmyndavél mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert