Katrín: Staðan óhugnanleg

Frá samhæfingarmiðstöðinni í Reykjanesbæ í morgun.
Frá samhæfingarmiðstöðinni í Reykjanesbæ í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir óhugnanlegt að sjá hversu nálægt Grindavík eldgosið sem hófst í morgun sé. 

„Það er auðvitað óhugnanlegt að sjá hversu nærri þetta er bænum,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Álagið gríðarlegt

Upp úr klukkan fjögur í morgun var Grindavík rýmd. Eldgos hófst svo klukkan 7.57, eins og greint var frá á mbl.is á sömu mínútu. Katrín segir ljóst að álagið á íbúa Grindavíkur sé gríðarlegt.

„Almannavarnir hafa auðvitað verið mjög á tánum að fylgjast með frá degi til dags. Enn og aftur vil ég segja það að það var rétt ákvörðun að fara í rýmingu núna í nótt þó að við hefðum átt von á að það yrði ekki fyrr en á morgun. Við erum auðvitað með öll augu á þessu svæði til að tryggja öryggi íbúa. Hins vegar er alveg ljóst að þetta er gríðarlegt álag fyrir bæjarbúa. Eðlilega er álagið farið að segja til sín hjá fólki.“

Katrín fylgist náið með stöðunni.
Katrín fylgist náið með stöðunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fylgjast náið með stöðunni

Katrín nefnir að mögulega geti varnargarðarnir gert gagn, en hraun flæðir nú í gegnum gat á varnargörðunum í átt að Grindavík.

„Eins og staðan er núna erum við að sjá að hraunið rennur í átt að Grindavík. Varnargarðarnir geta hins vega mögulega gert gagn þó að syðst hluti sprungunnar teygi sig inn í þá. Við erum að fylgjast með stöðunni frá mínútu til mínútu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert