Verktakar vinna nú að því að lengja varnargarð norðvestur af Grindavík aðeins til austurs til þess að grípa hraunflæði sem gæti farið yfir vegskarð sem er í garðinum.
Þetta staðfestir Arnar Smári Þorvarðarson, byggingatæknifræðingur hjá Verkís, í samtali við mbl.is en hann er einn umsjónarmanna uppbyggingar varnargarðanna.
„Það er verið að lengja aðeins garðinn til austurs, neðri garð sem kallast L8.“
Er hraun komið vestur fyrir varnargarða?
„Það er mislöndun á görðunum og það var að nálgast endann á L7 (sem gengur fram yfir Grindavíkurveg), renna fyrir endann á L7, til suðurs og lendir þá á L8 og rennur síðan vestan við Grindavíkurbæ, samsíða Nesvegi.“
Arnar segir að menn ýti möl og grjóti sem er til staðar upp eins og hægt er í snarhasti.
„Garðurinn verður ekki hár en menn eru að vonast til þess að ef það fer að flæða eitthvað yfir þá verður það lítið,“ segir hann og bætir við að það sem hefur farið yfir var ekki mikið og hefur storknað.
„Við erum að vonast til þess að það haldist þannig, en við erum samt aðeins að auka öryggið með þessu.“