„Maður er bara varnarlaus“

Eldgos við Grindavík hófst í dag.
Eldgos við Grindavík hófst í dag. Ljósmynd/Sveinbjörn Darri Matthíasson

„Þessi staða er bara ólýsandi og mjög ógnvænleg. Maður er bara varnarlaus gagnvart þessu,“ segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og íbúi í Grindavík, í samtali við mbl.is.

Upp úr klukk­an fjög­ur í morg­un var Grinda­vík rýmd. Eld­gos hófst  klukk­an 7.57, eins og greint var frá á mbl.is á sömu mín­útu. Vilhjálmur segist vera dofinn og eiginlega hálf tilfinningalaus eftir atburði dagsins. Hann segir marga Grindvíkinga einnig finna fyrir gríðarlegum kvíða. Óvissan sé algjör.

„Það er að raungerast svartari sviðsmynd en menn bjuggust við. Í mörg þúsund ár hefur ekki opnast gossprunga svo nálægt Grindavík. Við vorum að treysta á jarðsöguna – að það myndi ekki gerast aftur.“

Vilhjálmur er íbúi í Grindavík.
Vilhjálmur er íbúi í Grindavík. mbl.is/Hallur Már

Stjórnvöld aðstoði Grindvíkinga 

Ráðherrar munu funda um stöðuna klukkan fimm í dag. Ljóst er að ekki verður hægt að búa í Grindavík á næstunni. Vilhjálmur telur mikilvægt að stjórnvöld aðstoði Grindvíkinga við að koma sér í langtímahúsnæði. 

„Við búum bæði við gríðarlega óvissu og áhyggjur vegna náttúrunnar. Það er ekki hægt að svara þeim spurningum en það er hægt að svara þeim spurningum um hvernig verði staðið með íbúunum í að leigja, kaupa eða útvega sér langtímahúsnæði á meðan þetta gengur yfir,“ segir Vilhjálmur.

Þurfi að standa með fyrirtækjum

Vilhjálmur telur að í framtíðinni verði gott að búa í Grindavík. Því þurfi stjórnvöld að standa með fyrirtækjum í Grindavík, annars muni bærinn ekki byggjast aftur upp.

„Við ætlum að byggja Grindavík upp aftur en það mun taka lengri tíma úr þessu. Það þarf auðvitað líka að standa með fyrirtækjunum og gefa þeim svör. Því lengur sem að fyrirtækin verða látin standa í óvissu þá ýmist munu þau loka og hætta eða flytja varanlega úr bænum, og bærinn byggist ekki upp aftur án fyrirtækja, það er nokkuð ljóst,“ segir Vilhjálmur og bætir við:

„Það verður gott að búa þarna í framtíðinni en við þurfum bara að bíða lengur eftir þeim tíma eftir atburði morgunsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert