Óttast gos innan varnargarða Grindavíkur

Kristín Jónsdóttir.
Kristín Jónsdóttir. mbl.is/Arnþór

Sérfræðingar á Veðurstofu Íslands óttast að eldgos hefjist innan varnargarða Grindavíkur. Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri eldvirkni hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að ekki sé öruggt að vera í Grindavík núna.

„Við erum að fylgjast með þenslu við Svartsengi. Kvikan hefur greinilega fundið sér leið inn í kvikuganginn og leitað suður. Þetta kemur í svona hviðum. Síðastliðinn hálftíma eða svo höfum við séð mikla virkni undir Grindavík. Við höfum verið að vera mjög skýrt við því og varað við því að það gæti orði eldgos fyrir innan varnargarða,“ segir Kristín. 

Álíka mikið magn kviku og 18. desember

Stærstu skjálftarnir hafa mælst yfir þremur og segir Kristín eðlilegt að fólk á Reykjanesskaga finni fyrir skjálftum yfir 2,5 að stærð. 

Spurð út í hversu mikið magn kviku gæti brotið sér leið upp á yfirborðið ef eldgos hefst segir hún líklegt að það sé álíka mikið og í eldgosinu 18. desember. Það voru um 11 milljónir rúmmetra kviku sem höfðu safnast fyrir. 

„Ég myndi giska á að þetta væri að svipaðri stærðargráðu og 18. desember,“ segir Kristín. 

Spurð hvort hún telji að eldgos gæti hafist með sama krafti og 18. desember segir hún að það séu helmings líkur á að það gjósi. 

„Á meðan að það þessi atburður er í gangi eru líkur á að eitthvað meira gerist og það þarf að vara skýrt við því. Við þekkjum það frá síðasta gosi að þá opnaðist heljarinnar gossprunga þá,“ segir Kristín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka