Sprungan sem opnaðist norðan við Grindavík í morgun mælist nú 900 metra löng og rennur hraun úr henni aðallega til vesturs.
Minni sprunga, 100 metra löng, opnaðist nær bænum, og er um 200 metra frá hverfinu Efrahópi. Hraun rennur úr henni inn fyrir bæjarmörkin og veldur þar töluverðu tjóni.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Lengri sprungan er að mestu leyti norðan þeirra varnagarða sem undanfarið hafa verið í byggingu. Þeir beina megin hraunstraumnum til vesturs og hefur hrauntungan náð vel yfir Grindavíkurveg og þaðan áfram til suðvesturs.
Magn kviku sem streymir út úr gossprungunum, hraði hraunflæðis og stærð hraunsins verður metið betur á morgun.
Samfara myndun kvikugangsins til suðvesturs í morgun í átt að og líklega undir Grindavík varð mikil aflögun á svæðinu við gosstöðvarnar á nýjum sprungum og á eldri sprungum sem mynduðust 10. nóvember.
Þegar kvikugangurinn myndaðist í nótt varð afar hröð aflögun. Eftir að seinni gossprungan opnaðist dró verulega úr aflögun og nánast stöðvaðist, einkum við Hagafell og norðan þess. Enn mælist þó aflögun innan Grindavíkur en hún fer minnkandi.
Minnkandi aflögun er talið vera merki þess að kvikuþrýstingur sé að ná jafnvægi. Ekki er þó útilokað að fleiri gossprungur myndist.