„Það hefur dregið heldur hægar úr þessu en ég hefði viljað,“ svarar Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, spurður hvernig hann meti stöðuna á eldgosinu við Grindavík nú þegar rúmar tólf klukkustundir eru frá því að það hófst.
Hann segir að gossprungan sem opnaðist nær bænum sé „alveg ótrúlega dugleg“ en í tilkynningu Veðurstofunnar í kvöld sagði að hún væri um 100 metra löng og um 200 metra frá hverfinu Efrahóp.
Stærri sprungan, sem er að mestu leyti norðan þeirra varnagarða sem undanfarið hafa verið í byggingu, er um 900 metra löng og rennur hraun úr henni aðallega til vesturs. Ármann nefnir að hún sé öll að mestu virk, sérstaklega nyrsti hluti hennar. Hann segir að strókavirkni hafi dottið niður.
„Ég hef ekki trú á því að þetta standi yfir í langan tíma, en það getur gerst ýmislegt þó það standi ekki yfir í langan tíma.“
Ármann segir að eldgosið sem hófst í dag sé talsvert frábrugðið því sem hófst 18. desember.
Hann segir að gosið í desember hafi verið fljótt að slá af, „en þetta er aðeins lengur að slá af finnst mér“. Þá segir hann að gosið sem hófst í dag sé ekki eins kröftugt og síðasta.
„Í þessu gengur verr að koma kvikunni upp sem gerir það að verkum að það tekur aðeins lengri tíma að slá á gosið.“
Ármann segist ekki telja að fleiri gossprungur eigi eftir að myndast. Kerfið þurfi tími til að hlaða sig aftur eftir að hafa losað um þrýsting.
„Það er ekki nema við förum að sjá einhverja meiriháttar inngjöf í GPS-gögnunum. Ef eitthvað svoleiðis fer að koma fram, þá getur þetta verið að dúlla sér í svolítinn tíma.“
Lítur kvikumagnið út fyrir að vera minna?
„Já, það er alveg allt á við fjórum sinnum minna heldur en var þegar að það [eldgosið 18. desember] byrjaði. En það dregur kannski aðeins hægar úr því. Þannig að þetta getur svo sem endað með álíka kvikumagni eða eitthvað aðeins meira,“ segir Ármann og bætir við að kvikumagnið eigi þó eftir að koma í ljós.
Ármann segir það samt vera ánægjulegt að sjá að varnargarðurinn norður af Grindavík hafi gegnt sínu hlutverki að mestu.
„Allt þetta hraun sem að rennur með garðinum og í áttina að Þorbirni hefði allt farið niður í þorp ef að garðurinn hefði ekki verið. Þannig að það er svona eitthvað jákvætt í þessu,“ segir hann og bætir við að staðsetning eldgossins sé þó skelfileg.