„Þetta er sú sviðsmynd sem við hræddumst mest“

Frá eldgosinu við Grindavík í morgun.
Frá eldgosinu við Grindavík í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er sú sviðsmynd sem við hræddumst mest, þetta er það nálægt byggð. Ég sé ekki betur en að hraunið flæði bæði austur fyrir [varnar]garðinn og mér sýnist gossprungan hafa einnig náð í gegnum garðinn. Það er hraun að flæða bæði sunnan og norðan við garðinn.“

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um eldgosið sem hófst rétt norðan Grindavíkur í morgun.

Lán í óláni

„Góðu fréttirnar eru að þetta virðist vera frekar afllítið gos og vonandi heldur bara áfram að draga úr því jafnt og þétt þannig að þetta verði afllítið og stutt gos. Þá verður hraunbreiðan ekki voðalega stór, það væri ákjósanlegast,“ segir Þorvaldur.

Hann segir það einnig góðar fréttir að þrátt fyrir að hraunið flæði suður fyrir varnargarðinn þá sé varnargarðurinn að halda ákveðnu magni af hrauninu norðan megin við hann.

„Þá er ákveðið magn af hrauni sem veldur ekki beinni hættu fyrir Grindavík, sem dregur aðeins úr mögulegum afleiðingum.“

Þorvaldur segir að svo virðist sem lítill kraftur sé í gosinu og því gæti því lokið fyrir helgi en ekkert er öruggt í þeim efnum.

„Versta sviðsmyndin væri ef þetta gos myndi halda dampi dálítið lengi og standa í einhverjar vikur eða mánuði, þá gæti þetta skilað mun stærri hraunbreiðu.“

Spurning um frekari varnargarða

Ef hraunið heldur áfram að flæða er eina leiðin fyrir það að renna í átt að bænum?

„Það eru náttúrulega aðrar leiðir færar. Ef það er talið ásættanleg áhætta væri hugsanlega hægt að fara og búa til varnargarða nær bænum og beina hrauninu til austurs eða suðausturs meðfram Þórkötlugörðum og niður í sjó þá leiðina. Landið liggur þannig að það er líka líklegt að hraunið reyni að fara þann farveg sem liggur meðfram vesturhlíð Húsafjalls og þá leið að sjó.“

Þorvaldur segir erfitt á þessu stigi að segja hversu langvarandi gosið verður, en telur ekki miklar líkur á langvarandi eldgosi.

„Við verðum bara að bíða og sjá hvað gerist næsta sólarhringinn, en ég á nú ekki von á að þetta verði langt gos vegna kvikumagnsins sem hafði safnast fyrir þarna niðri, svipað eins og við síðasta gos. Ég á ekki von á að þetta vari mikið lengur en nokkra daga og gæti alveg eins verið búið fyrir helgi.“

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði. mbl.is/Brynjólfur Löve

Dæmigert fyrir elda

Hann kveðst ekkert geta sagt með algjörri vissu um langtímahorfurnar en segir líkur á frekari eldgosum í framhaldinu. „Mér finnst líklegt að þegar þessu gosi lýkur hefjist landris aftur og við fáum endurtekningu á þessum atburðum og við gætum fengið það í nokkur skipti í viðbót, því miður.“

Slík atburðarás er dæmigerð fyrir svokallaða elda þar sem verða nokkuð mörg gos með stuttu millibili í einhvern tíma, að sögn Þorvaldar. „Stundum hafa þetta verið nokkur ár og stundum nokkrir áratugir. Vona að við séum að tala um árin en ekki áratugina.“

Líkur sem vísindamenn gefa hafa þó sínar takmarkanir útskýrir Þorvaldur að lokum. „Náttúran hefur sínar leiðir og fer ekkert alltaf eftir því sem okkur finnst líklegast. Við verðum bara að bíða og sjá.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert