„Það er vel þess virði að reyna að tefja þetta eins og hægt er, með þeim aðferðum sem hægt er að beita. Það getur bjargað einhverju – við vitum það ekki – en það er tilraunarinnar virði,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um stöðu mála í Grindavík vegna eldgossins sem hófst í morgun.
Til skoðunar hefur verið að gera varnargarða nærri byggð í Grindavík til að verja bæinn og beina hraunflæðinu annað.
„Eldgos hófst klukkan átta og sprungan er framhald af sprungunni þar sem hófst eldgos 18. desember, en er miklu sunnar. Syðsti parturinn sker varnargarðana sem var verið að byggja og nær um 200 metra suður fyrir þá. Sprungan er um kílómeters löng og gróft mat er að þetta sé um fjórðungur í ákafa af því sem var í desember,“ útskýrir Magnús Tumi.
„Eftir tvo tíma vantaði ekki nema um hálfan kílómetra í að hraunstraumurinn næði nyrstu húsum í Grindavík, en það er spurning hvernig þetta mun þróast. Það dregur yfirleitt töluvert úr gosum frekar hratt en við eigum eftir að sjá hvernig þetta þróast,“ segir hann.
Varnargarðarnir sem voru í byggingu norður fyrir Grindavík gera gagn að sögn Magnúsar Tuma sem bendir á að meirihluti kvikunnar sé að koma upp norðan við garðana sem beinir hraunflæðinu til vesturs, en hlut kvikunnar kemur upp suður fyrir garðana og stefnir að íbúabyggð.
Þó á eftir að koma í ljós hversu miklu varnargarðarnir ná að beina hrauni frá bænum og veltir það á því hve lengi gosið stendur. Bendir hann á að í langflestum eldgosum dregur úr virkni strax frá því að gos hefst og eru allar líkur á því að þetta eldgos hagi sér eins.
„Spurningin er hversu lengi þetta mun standa og hversu hratt dregur úr því, það bara vitum við ekki sem stendur.“
Í ljósi þess að dragi úr gosvirkninni er bara eitt í stöðunni að sögn Magnúsar Tuma.
„Það er að reyna að gera eins mikið og mögulegt er að gera einhverjar fyrirstöður og tefja hraunið. Blasir við að það sé mjög þess virði. Hvert hús er kannski einhverjar 100 milljónir fyrir utan það tilfinningalega tjón sem verður þegar húsin þeirra fer undir hraun. Það blasir við að það þarf að gera allt sem mögulegt er til að draga úr skaðanum.“