Karlotta Líf Sumarliðadóttir
Þorvaldur H. Þórðarson, settur yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun (MAST), segir allt að 240 kindur innilokaðar í fjárhúsum í Grindavík.
Fulltrúar MAST hafa verið í samskiptum við almannavarnanefnd Suðurnesja og hvatt til þess að eigendum verði veitt leyfi til þess að koma dýrum sínum í öruggt skjól.
„Við höfum bent á nauðsyn þess og gert það sem í okkar valdi stendur til að ýta við þessu. Okkur sýnist þetta vera á bilinu 220 til 240 kindur,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is.
„Við bíðum eftir því að þetta verði tekið fyrir.“
Vatnslaust er í Grindavík vegna eldgossins sem hófst við bæinn í morgun. Þorvaldur bendir á alvarleika þess að skepnurnar fái ekkert vatn.
Þorvaldur kveðst ekki vita um fjölda dýra af öðrum tegundum í Grindavík. Hann hafi þó fengið fregnir af því að nokkrir kettir hafi ekki skilað sér þegar íbúar yfirgáfu bæinn og það sé áhyggjuefni.
Hann segir mikilvægt að dýrunum verði bjargað sem allra fyrst.
„Okkur er umhugað um öll þessi dýr og að þau komist í gott skjól.“