„Maður er sleginn yfir þessari nýju atburðarás. Það opnaðist ný sprunga sem er nær bænum og hraunið er komið yfir Grindavíkurveginn.“
Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is. Eldgos hófst rétt norðan við Grindavík laust fyrir klukkan 8 í morgun og rétt eftir klukkan 12 myndaðist ný sprunga sem er nær bænum.
„Þessi nýja sprunga er lægra í landinu heldur en sprungan fyrir ofan og neikvæðasta myndin er sú að virknin sem var fyrir ofan færist yfir í þessa nýju sprungu og það hætti að gjósa úr efri sprungunni,“ segir Þorvaldur.
Þorvaldur sér fyrir sér tvær sviðsmyndir.
„Önnur er sú að ef færslan er þá heldur virknin áfram í neðri sprunginni og svo lengi sem gosið er í gangi þá myndast hraun sem heldur áfram að flæða í átt að bænum. Hin sviðsmyndin, sem er verri, er að þetta sé viðbót við það sem er að gerast á efri sprungunni. Þar með eykst gosið,“ segir Þorvaldur.
Hann segir vel mögulegt að fleiri gossprungur geti myndast fyrst atburðarásin sé komin í þennan farveg.
„Því miður eru líkurnar meiri á að það opnist sprungur neðar í landinu heldur en ofar því það er auðveldra fyrir kvikuna að koma þar upp. Mér sýnist að sprungan sé alltaf að lengjast sem er ekki góðs viti. Staðan er því miður orðin mjög svört fyrir Grindavík en vonandi fer þetta allt á besta veg,“ segir Þorvaldur.
Spurður hvort hann geri sér einhverja grein fyrir því hversu gosið geti staðið yfir lengi segir Þorvaldur:
„Að því gefnu að það sé verið að tæma kvikuna úr því geymsluhófi sem var verið að pumpa inn í í þessum atburðum sem við erum að horfa á sem er svipað rúmmál og myndaðist fyrir gosið 18. desember þá myndi ég halda þar sem framleiðnin núna var töluverð lægri í byrjun en í gosinu 18. desember að það tæki lengri tíma til að tæma úr geymsluhólfinu. Það gæti því kannski staðið yfir í eina viku eða rúmlega það.“
Hann segist vonast til þess að ekki komi neitt viðbótar kvikumagn en ef það gerist þá geti gosið staðið yfir mun lengur og eftir því lengur sem það vari þá myndist meira hraun sem geti stefnt byggðinni í Grindavík í hættu.