Vilja fylla í skarðið og skoða frekari garða

Flogið yfir gosstöðvarnar í morgun með Gæslunni. Á myndinni sést …
Flogið yfir gosstöðvarnar í morgun með Gæslunni. Á myndinni sést hvernig hraunið er sitt hvoru megin við varnargarðinn og gróðurhús Orf Líftækni er fremst á myndinni. mbl.is/Árni Sæberg

Verktakar sem unnið hafa að gerð varnargarða við Grindavík og Svartsengi síðustu mánuði horfa nú til þess að fylla upp í skarðið á varnargarðinum norður af Grindavík, þar sem Grindavíkurvegur fer í gegn.

Er það gert til að reyna að minnka umfang hrauns sem kemst suður fyrir varnargarðinn. Þá er að svo stöddu ekki taldar miklar líkur á að gosið muni leiða til þess að hraun flæði niður í Svartsengi, þar sem raforku- og heitavatnsframleiðsla HS Orku er.

Náðu að fjarlægja allar vélarnar

Arnar Smári Þorvarðarson, byggingatæknifræðingur hjá Verkís, er einn umsjónarmanna uppbyggingar varnargarðanna. Hann segir að vélamenn á svæðinu séu nýbúnir að fjarlægja allar vélarnar sem voru staðsettar á varnargarðinum, en hann hefur undanfarna daga verið í byggingu.

Í morgun þegar eldgosið hófst voru fljótlega komnir átta tækjamenn á staðinn að sögn Arnars, en í vefmyndavélum í morgun mátti sjá starfsmennina í kappi við tímann, rétt við hraunjaðarinn, sækja vélar og koma þeim í skjól. Fljótlega hafi svo fjölgað aðeins í hópi vélamanna, en Arnar segir að það hafi tekist að bjarga vélunum og að nú taki við næstu skref.

Gosið hófst suðaustan við Hagafell, syðst á Sundhnúkagígaröðinni. Varnargarðurinn norðan …
Gosið hófst suðaustan við Hagafell, syðst á Sundhnúkagígaröðinni. Varnargarðurinn norðan Grindavíkur var í vinnslu, en skarð er þar sem Grindavíkurvegur þverar hann. Horft er til þess að fylla þar upp í. Kort/mbl.is

Horfa til að fylla í skarðið þar sem Grindavíkurvegur þverar

Segir hann að nú sé horft til þess að fylla í skarðið á varnargarðinum þar sem Grindavíkurvegur þverar garðinn. Segir hann að með því sé mögulega hægt að minnka umfang hraunsins sem rennur í vesturátt norðanmegin við garðinn þannig að það sameinist ekki og auki á flæðið sunnan megin við hann.

Hann segir ólíklegt að það takist að fylla upp í skarðið í fulla hæð, en að þeir muni ná að fylla eitthvað upp í það.

Nýr varnargarður í skoðun

Spurður út í næstu skref og hvort komi til greina að reyna að koma upp frekari varnargörðum nær byggðinni segir Arnar slíkt vera í skoðun. Segir hann það að nokkru leyti helgast af því hver hraði gossins sé, en að ef ákveðið verði að fara í verkefnið nú á eftir yrði það rétt norðan við Grindavík, enda er hraunið nú innan við hálfan kílómetra fyrir norðan nyrstu byggð Grindavíkur.

Spurður út í stöðu Svartsengis segir Arnar að miðað við hermanir þurfi gosið að aukast talsvert mikið til að það fari að renna í norðvesturs í átt að Svartsengi. Þannig sé nokkur hæð upp í skarð austan við fjallið Þorbjörn sem verji Svartsengi. Til viðbótar séu vélar til staðar sem gætu rutt upp garði þar sem landið er hæst og þannig aukið enn á varnir fyrir Svartsengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert