Vonar að settir verði upp varnargarðar nær byggð

Skjáskot úr vefmyndavél mbl.is sýnir hvernig vinnuvél er keyrt á …
Skjáskot úr vefmyndavél mbl.is sýnir hvernig vinnuvél er keyrt á milli hrauntaumanna. Skjáskot/mbl.is

Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík, segir það geta farið svo að reynt verði að reisa varnargarða nær byggð til að verja bæinn frá hraunflæðinu.

Um 70 björgunarsveitarmenn hafa tekið þátt í rýmingaraðgerðum í nótt og sinna sveitirnar nú lokunum á vegum til Grindavíkur.

„Það er verið að reyna að skipuleggja hvað gerist næst,“ svarar Bogi spurður um stöðuna í kjölfar þess að eldgos hófst norðan Grindavíkur í morgun.

„Það er verið að bjarga öllum [vinnu]vélum og mér heyrist að það sé að hafast að ná þeim öllum. Vonandi fara þeir bara beint í að ryðja upp annars staðar fyrir framan [byggðina]. Mér heyrist það verða þannig, en dagurinn verður bara að leiða í ljós hvernig þetta verður. Það er ekkert annað hægt að gera,“ segir hann.

Mikill fjöldi fólks tók þátt í aðgerðum

Ákveðið var að rýma Grindavík í nótt vegna yfirvofandi eldgoss og tóku björgunarsveitir þátt í því að tryggja að allir myndu yfirgefa bæinn.

Bogi segir að vel hafi gengið að rýma Grindavík þar sem töluvert færri voru í bænum en undir venjulegum kringumstæðum.

Umfang verkefnisins var því ekki jafn mikið og við fyrstu rýmingu fyrir síðasta eldgos. „Það var keyrð hver einasta gata í bænum, en þetta var ekki eins mikið og síðast.“

Bogi Adolfsson.
Bogi Adolfsson. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Björgunarsveitir af öllum Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu taka þátt í aðgerðum og er um að ræða um 70 manns sem sinnt hafa verkefnum í nótt og í dag. Bogi bendir á að mannskapurinn sé enn meiri ef litið er til þeirra sem sinna verkefnum á stjórnstöð, auk þess sem slökkvilið, lögregla og verktakar hafa haft nóg að gera.

Spurður um framhaldið svarar Bogi: „Það er ekkert annað núna en að bíða og sjá hvað verður með framhaldið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert