Skjálfti að stærð 2,7 mældist við Bárðarbungu í Vatnajökli klukkan hálfellefu.
Samkvæmt óyfirförnum mælingum Veðurstofu Íslands voru upptök skjálftans á 0,1 kílómetra dýpi um 7,7 kílómetrum austur af Bárðarbungu.
Jökulhlaup hófst úr Grímsvötnum á fimmtudag og náði hámarki í gær. Streymið í Gígjukvísl, þar sem hlaupvatnið rennur, hefur haldist nokkuð stöðugt síðustu klukkustundirnar.
Þá hefur rafleiðni, sem segir til um styrk uppleystra rafhlaðinna efna og efnasambanda í vatninu, aukist jafnt og þétt undanfarinn sólarhring.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, sagði í viðtali við mbl.is fyrir helgi að þrýstingsbreyting í kjölfar jökulhlaupsins gæti komið af stað eldgosi í Grímsvötnum. Væri þá líklegast að gos myndi hefjast þegar vötnin væru að tæmast.