Marteinn Þórdísarson björgunarsveitarmaður, sem mbl.is ræddi við nærri gosstöðvunum við Grindavík í dag, segir að gosið sé miklu minna í sniðum heldur en í gær.
„Það er mikill munur frá því í gær og gosið virðist hægt og bítandi vera að deyja út og það vonum við svo sannarlega,“ sagði Marteinn við mbl.is við svæðið suðvestan við Þorbjörn í dag sem er staðurinn sem fjölmiðlafólki er fylgt á af björgunarsveitarmönnum.
Hann segir fjölmiðlahópinn stækka með hverjum deginum. Í gær hafi 16 bílum af fjölmiðlafólki verið fylgt að svæðinu og í dag hafi þeir verið vel á þriðja tug talsins.
„Hlutverk okkar í dag er að fylgja fjölmiðlum, tryggja öryggi þeirra og allt sem því fylgir. Það gengur allt mjög vel og þetta fyrirkomulag virðist vera að virka,“ segir Marteinn en fjölmiðlafólki er hleypt nær gosstöðvunum í tveimur hollum. Það fyrra fór klukkan 11 í morgun og það síðara klukkan 16.
Marteinn er búsettur í Reykjanesbæ og starfar í björgunarsveitinni Suðurnes þar í bæ.
„Ég er búinn að taka þátt í björgunarsveitarstarfi frá því ég var 14 ára gamall. Ég hef verið mjög virkur undanfarin ár og hef sinnt gæslustörfum í öllum þessum fjórum eldgosum síðustu þrjú árin. Þetta er búinn að vera mikill rússibani og menn segja að þetta sé komið til að vera. En það er von mín og allra að þetta haldi sig fjær byggð frekar en nær eins og þetta eldgos.“