Ekkert hraunstreymi lengur úr syðri sprungunni

Hraun úr syðri sprungunni flæddi inn fyrir bæjarmörkin og yfir …
Hraun úr syðri sprungunni flæddi inn fyrir bæjarmörkin og yfir þrjú hús og er á lóðarmörkum þess fjórða. Nú virðist hins vegar eins og streymi úr sprungunni hafi stöðvast. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hraunstreymi úr syðri sprungunni við Grindavík virðist hafa stöðvast og þar með áframhaldandi hraunflæði inn fyrir bæjarmörkin. Þrjú hús virðast hafa orðið fyrir hrauninu hingað til. Nyrðri sprungan virðist þó áfram vera með svipað flæði og í gær. Þetta segir Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Hraun er við lóðarmörk fjórða hússins, sem er nr. 20, en það stend­ur við göt­una Efra­hóp. Fyrr í nótt sagði náttúruvársérfræðingur við mbl.is að enn kæmu litlar spýjur upp á yfirborðið öðru hvoru, en nú virðist því hins vegar lokið.

Órói hefur minnkað örlítið að sögn Böðvars, en það sé samt lítið og ekki hægt að segja til um þýðingu þess strax.

Veðurstofan nýtir bæði vefmyndavélar sem og drónaskot sem björgunarsveitir hafa útvegað í nótt. Segir hann að samkvæmt því virðist nú dautt í syðri sprungunni og ekkert hraunstreymi upp úr sprungunni. Þetta muni þó koma betur í ljós þegar birtir.

Varðandi kvikuinnstreymi inn í efri kvikuhólfið segir Böðvar erfitt að segja til um það og að frekari mælingar verði gerðar í dag af aflögunarsérfræðingum Veðurstofunnar.

Enn er jarðskjálftavirkni við gosstöðvarnar, en Böðvar segir þó að eitthvað af þeim skjálftum sem komi fram á korti á vef Veðurstofunnar séu óyfirfarnir skjálftar sem ekki séu alvöru skjálftar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert