„Ekki í mínum villtustu draumum“

Bubbi Morthens segir að velgengni hans Níu lífa hefði ekki …
Bubbi Morthens segir að velgengni hans Níu lífa hefði ekki hvarflað að honum í villtustu draumum. Tónlistarmaðurinn stefnir hraðbyri í sjötugt og slær ekki feilpúst. En verða risatónleikar 6. júní 2026 þeir síðustu á ferli hans? mbl.is/Kristinn Magnússon

„Já...var það ekki einhver hljómsveit sem sagði „gefðu fólkinu það sem það vill“? Ef fólk sýnir þessu svona rosalega brjálæðislegan áhuga þá er auðvitað ekkert annað en að reyna að koma til móts,“ segir gítargoðsögnin Bubbi Morthens í samtali við mbl.is, inntur eftir framhaldslífi ævisögulegu tónlistarveislunnar Níu lífa sem nú er orðið ljóst að verður.

Tónlistarmaðurinn slær þó þann varnagla að ljóst sé að einhvern daginn fái fólk nóg, „en ég er gríðarlega glaður, mér finnst þetta æðislegt, þetta er eitt af stærstu ævintýrum lífs míns þessi söngleikur og viðtökurnar eru þannig að sá maður hlýtur að vera hjartalaus og framheilaskaðaður sem fyllist ekki auðmýkt og þakklæti yfir einhverjum einstökustu viðtökum í sögu leikhúsverka og þjóðarinnar“, heldur Bubbi áfram.

Handrit Ólafs lykillinn

Ekki neitar hann því að hann hafi vonast eftir því, eins og kettir gera væntanlega líka ef marka má þjóðsöguna, að Níu líf gengju vel. „Ekki í mínum villtustu draumum, og þótt ég væri tvítugur, hefði mér dottið þetta í hug, mig skortir eiginlega orð, og mig skortir aldrei orð skilurðu, ég get alltaf blaðrað um allt og ekkert,“ segir Bubbi og hlær.

Segist hann ekki velkjast í vafa um að lykillinn að velgengni söngleikjarins sé einstaklega vel skrifað handrit Ólafs Egils Egilssonar sem einnig leikstýrir herlegheitunum og talar Bubbi hér hiklaust um gullhandrit auk þess að geta ekki orða bundist um það úrval leikara sem valist hefur til að túlka hann á hinum ýmsu skeiðum ferilsins.

Valur Freyr Einarsson er sátti Bubbi í Níu lífum.
Valur Freyr Einarsson er sátti Bubbi í Níu lífum. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

„Þetta dettur allt saman; sagan mín, lögin og þessi ótrúlegi leikarahópur sem mætt hefur dag eftir dag og lagt hjarta og sál að veði,“ lýsir Bubbi gleði sinni með Níu líf. „Ég gantast stundum með það þegar ég fer og næ í „litla Bubba“ og segi þá að sýningarnar séu kannski alls konar en þetta endi alltaf eins, það verði allt brjálað þegar verið er að ná í litla Bubba og grátandi fólk úti um allt,“ segir listamaðurinn og hlær.

Einn umdeildasti listamaður þjóðarinnar

En þú hefur nú verið fjölskylduvinur hjá allstórum hópi Íslendinga í bráðum fimmtíu ár Bubbi, 44 á þessu ári, þetta ætti því varla að koma svo mikið á óvart.

„Ja, maður er auðvitað ekki dómari í eigin sök og ég verð bara að viðurkenna það að ég gerði mér ekki grein fyrir því hve mikla velvild og -þóknun þjóðin hefði á mér vegna þess að ég hef verið kannski einn umdeildasti listamaður þjóðarinnar allan þennan tíma og stundum komið mér út í horn og út í kant með alls konar yfirlýsingum, farið á móti straumnum og sungið um alls konar hluti sem eru ekki líklegir til vinsælda og allt þetta,“ játar Bubbi fúslega.

Ólafur Egill Egilsson og Esther Talia Casey. Bubbi lofar handrit …
Ólafur Egill Egilsson og Esther Talia Casey. Bubbi lofar handrit og vinnu Ólafs í hástert og kveður hann hafa setið á Þjóðarbókhlöðunni í ár við undirbúning. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engu að síður gerist nú þetta, að skyndilega uppgötvi hann að hans ferðalag hafi verið einstakt. Visslulega hafi honum verið það vel kunnugt að hann ætti sér sína aðdáendur, þeir væru á sínum stað. Engu að síður kæmi það honum verulega á óvart að langt yfir hundrað þúsund manns sæktu sýningu um ævi hans.

„Ég næ bara ekki utan um það,“ segir hann til áhersluauka, „en þetta sýnir manni að ævintýri gerast og þau ævintýri sem við förum í gegnum eru líka bara skilaboð til listamanna um að það er allt hægt. Þótt við búum á Íslandi, með ekki fleira fólki en raun ber vitni, hefur mér alltaf tekist að lifa á listinni minni, stundum vel, stundum illa, stundum gríðarlegt hark og vesen og maður hefur þurft að hlaupa frá degi til dags til að eiga fyrir mat ofan í fjölskylduna og allt þetta. En að sama skapi, ef þú ert nógu þrautseigur og þrjóskur og trúir á það sem þú ert að gera og hefur ástríðu fyrir því, þá mun það alltaf skila sér. Ég vil frekar vera hamingjusamur og blankur en ríkur og ekki hamingjusamur,“ segir Bubbi Morthens og hlær nú við raust.

Eftir að hafa prófað allt milli himins og jarðar geti hann því ekki annað en kallað líf sitt fram til þessa þvílíkt ferðalag.

Bubbi við kveðjuathöfn Guðbergs Bergssonar rithöfundar í fyrrahaust.
Bubbi við kveðjuathöfn Guðbergs Bergssonar rithöfundar í fyrrahaust. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áfallið og „dry“ heiðarleiki

En segðu mér nú eitt um þá mörgu leikara sem túlka þig á mismunandi æviskeiðum. Komst þú þar að með ráðgjöf eða nægði þeim að hlusta á tónlistina og lesa þessar tvær ævisögur þínar sem litið hafa dagsins ljós?

„Sko, Ólafur Egilsson kom auðvitað til mín og tók mörg og löng viðtöl við mig og ég vissi líka að hann sat á Þjóðarbókhlöðunni í nánast eitt ár og las fleiri hundruð viðtöl við mig og svo las hann ljóðabækurnar í ræmur, þær eru þarna yfir og allt um kring í díalógnum. Hann spurði mig svo einhvern tímann hvort það væri eitthvað sem ég vildi ekki að kæmi fram, eitthvað sem ég vildi ekki að fólk vissi og ég sagði bara við hann „ekki spyrja mig um þetta, gerðu bara nákvæmlega það sem þú ætlar að gera og láttu mig svo sjá þetta þegar generalprufan verður,“ er svarið.

„Þú getur búið til einhverja klisju og glamúr eða eitthvað …
„Þú getur búið til einhverja klisju og glamúr eða eitthvað svoleiðis en þegar upp var staðið var eina leiðin bara að vera algjörlega „dry“ heiðarlegur.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í framhaldinu játar tónlistarmaðurinn þjóðkunni að hann hafi fengið áfall er hann sat téða generalprufu og horfði á allt líf sitt streyma fram hjá í túlkun Ólafs og leikarahópsins.

„Ég skal alveg vera heiðarlegur að ég fékk dálítið áfall þegar ég sá þetta og ég man að ég sagði við Hrafnhildi að ég væri búinn að koma mér í bölvað vesen og ég svaf ekki mikið næstu þrjár nætur eftir generalprufuna,“ segir hann. Þar hafi skömm jafnvel komið við sögu.

„Ég hálfpartinn skammaðist mín bara, ég verð nú að viðurkenna það, mér fannst ég einhvern veginn hafa farið allt of geyst í það að opinbera mig. En einhvern veginn var það eina leiðin, það var engin önnur leið. Þú getur búið til einhverja klisju og glamúr eða eitthvað svoleiðis en þegar upp var staðið var eina leiðin bara að vera algjörlega „dry“ heiðarlegur, láta allt ganga yfir þig og ég held að það sé lykillinn að velgengninni,“ segir Bubbi í sama „dry“ heiðarleikanum og hann nefnir.

Stolt, þakklæti og auðmýkt

Honum hafi ekki endilega verið það auðvelt að opinbera ýmislegt úr sínu einkalífi, þar á meðal alls konar áföll sem hann hefði orðið fyrir. „Þetta var rosa erfitt en að sama skapi var þetta þerapía vegna þess að þegar upp er staðið var hver sýning bara eins og ég væri hjá henni Valdísi minni sem er þerapistinn minn. Þetta var bara eins og 550 manna þerapía,“ og hlær Bubbi nú þriðja sinni eins og marbendillinn í þjóðsögunni.

Halldóra Geirharðsdóttir sem Egó-Bubbi og Hjörtur Jóhann Jónsson sem edrú …
Halldóra Geirharðsdóttir sem Egó-Bubbi og Hjörtur Jóhann Jónsson sem edrú Bubbi í Níu lífum. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Hann kveðst stoltur, þakklátur og auðmjúkur og nefnir sérstaklega að leikararnir sem glætt hafa sýninguna lífi rúmlega 230 sinnum hafi staðið sig einstaklega. „Það er meira en að segja það fyrir leikara að leika langt yfir 200 sýningar. Hvernig þau hafa gert þetta og bara allt starfsfólkið kringum þessa sýningu, maður er náttúrulega bara kjaftstopp eiginlega,“ segir Bubbi og bætir því við að aukinheldur hafi hann eignast vini fyrir lífstíð gegnum sýninguna.

Ískalda staðreynd segir hann það vera að leikararnir hafi lagt á sig þrekvirki sem ekki eigi sér margar hliðstæður, mætt veikir, slappir, slasaðir og í öllu ástandi – an alltaf mætt.

„En ég mætti“

„Þessi frasi, „the show must go on“, er bara ísköld staðreynd. „Ég man þegar ég fékk kóvidið á Þorláksmessu í hitteðfyrra og ég var svo veikur að ég hélt bara að ég myndi enda á spítala eða eitthvað. En ég þurfti að mæta. Ég gat ekki sungið, ég held að af öllum þessum sýningum hafi ég misst úr eina, ég var svo veikur, og tvisvar gat ég ekki hreyft mig. En ég mætti, ég mætti og var á sviðinu. Galdurinn á bak við þessa sýningu er í rauninni Ólafur Egilsson og þessi stóri leikarahópur sem hefur glætt þetta lífi og gert það að verkum að stór hluti þjóðarinnar er með gapandi munninn,“ segir Bubbi og fer ekki í neinar grafgötur með ánægju sína.

Bubbi Morthens á sér mörg andlit. Hér er hann í …
Bubbi Morthens á sér mörg andlit. Hér er hann í essinu sínu á tónleikum með Egó í félagsheimilinu Stapa í Njarðvík árið 1983. mbl.is/Einar Falur

Talið snýst að öðru sem hann hefur á prjónunum þessa dagana og ljóstrar Bubbi því upp að hann sé að fara að taka upp Einræður Starkaðar eftir Einar Benediktsson en þeim sem lásu fyrri ævisögu Bubba, sem Silja Aðalsteinsdóttir færði listilega í letur fyrir rúmum þremur áratugum, dylst ekki að skáldið sem endaði ævi sína í Herdísarvík á mikið rými í hjarta tónlistarmannsins.

„Það eru Jónas Hallgrímsson, Egill Skallagrímsson og Einar Ben. í mínum huga,“ segir Bubbi af sínum hjartans skáldum en auk þess boðar hann plötu með haustinu sem hann hefur þegar lokið við, fyrstu lög af henni segir hann fara að heyrast í apríl og eins og það nægi ekki á einu og sama árinu hjólar hann svo beint í að vinna efni fyrir næstu plötu. Styttist þó í sjötugsafmælið og blaðamaður notar tækifærið til að veiða upp úr Bubba áætlanir um veisluhöld sem af lýsingunni verða uppi á meðan moldir og menn lifa.

Síðustu tónleikar Bubba Morthens?

„Trúðu mér, ég ætla að halda rosalega veislu þegar ég verð sjötugur, ef ég lifi svo lengi,“ segir hann og það síðasta í léttum dúr áður en blaðamaður nefnir að frammistaðan á fimmtugsafmælinu 2006 hafi nú verið af öllu afli.

„Já, ég ætla að toppa það,“ segir Bubbi án hiks, „já já, þú mátt alveg hafa það eftir mér. Við erum byrjaðir að undirbúa það get ég sagt þér, þetta verður nákvæmlega sjötta júní tuttugu og sex. Þar verður ýmsu tjaldað til sem ég held mögulega að innlendur tónlistarmaður hafi ekki gert áður hér á Íslandi. Hvað heldurðu?“

Bubbi með Stórsveit Reykjavíkur sumarið 2009.
Bubbi með Stórsveit Reykjavíkur sumarið 2009. mbl.is/Brynjar Gauti

Bubbi leyfir blaðamanni einnig að hafa það eftir honum í þessu viðtali að á meðan hann hafi rödd og geti hreyft sig muni hann syngja inn á plötur og annað. „En svo getur það vel verið að þessir tónleikar, þegar ég verð sjötugur, verði síðustu tónleikar ævi minnar, það er alveg möguleiki á því,“ segir Bubbi Morthens sem lognmollan hefur sjaldnast leikið um síðan platan Ísbjarnarblús leit dagsins ljós 17. júní 1980 í samstarfi við hina fornfrægu bókaútgáfu Iðunni.

Ferillinn að nálgast hálfa öld en Bubbi er hvergi nærri …
Ferillinn að nálgast hálfa öld en Bubbi er hvergi nærri hættur og með mörg járn í eldinum. Stórtónleikar að honum sjötugum nálgast jú óðfluga. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka