Fór við fimmta mann að bjarga vélum

Frá vettvangi í gær.
Frá vettvangi í gær. Ljósmynd/Þröstur Kjaran Elísson

„Við komum hérna í nótt þegar allt fór að skjálfa og þegar eldgosið byrjaði fórum við af stað. Það tók dálítinn tíma að fá leyfi til að fara og ná í vélarnar.“ Þetta segir Þröstur Kjaran Elísson, starfsmaður verktakafyrirtækisins Flakkarans sem fór að austasta varnargarðinum við Grindavík eldsnemma í gærmorgun við fimmta mann til björgunar fjölda vinnuvélar sem þar stóðu.

„Þær voru uppi á varnargarðinum, svona hundrað til hundrað og fimmtíu metra frá staðnum þar sem sprungan kom í gegnum garðinn,“  útskýrir Þröstur og bætir því við að þarna hafi nokkrar stærstu jarðýtur landsins verið saman komnar og gröfur og búkollur að auki. Allt í allt töluvert margar vinnuvélar frá nokkrum verktökum, þar á meðal Ístaki en Þröstur er gamall Ístaksmaður. Núverandi vinnuveitandi hans var hins vegar með eina leigða jarðýtu á staðnum.

Fimmmenningarnir skunduðu yfir móa og upp á varnargarðinn eldsnemma í …
Fimmmenningarnir skunduðu yfir móa og upp á varnargarðinn eldsnemma í morgun og hefðu ekki mátt vera öllu síðar á ferðinni. Ljósmynd/Þröstur Kjaran Elísson

Ert þú Grindvíkingur sjálfur?

„Nei, elsku karlinn minn, ég er Vestfirðingur. Þeir eru gjarnir á að koma og bjarga hlutunum,“ svarar Þröstur snöggur upp á lagið og segir frá því hvernig þeim félögum hafi verið ekið á vettvang og farið svo tvær til þrjár ferðir hver til að aka vinnuvélunum af varnargarðinum og niður að Grindavíkurafleggjaranum.

Hefðu ekki mátt vera seinna á ferð

„Við löbbuðum yfir móana fyrir framan hraunið og upp á garðinn. Það var sérstakt að sjá þetta, hraunið var farið að renna báðum megin við garðinn, það var alveg þokkalega hlýtt hjá okkur,“ segir Þröstur og aðspurður kveður hann þá björgunarmenn ekki hafa mátt vera mikið seinna á ferðinni.

Ærin fyrirhöfn og tími hefði farið að útvega nýjar vélar. …
Ærin fyrirhöfn og tími hefði farið að útvega nýjar vélar. Þröstur segir peningatjónið eitt en eins árs afgreiðslutíma nýrra véla annað og jafnvel verra mál. Ljósmynd/Þröstur Kjaran Elísson

Óku þeir vélunum sem fyrr segir niður á afleggjarann til Grindavíkur. „Þar tókum við Grindavíkurafleggjarann í sundur og ýttum upp varnargarði þar til að stoppa rennslið, það var búið að gera garð beggja vegna við veginn og við lokuðum því skarði,“ útskýrir Þröstur.

„Svo fórum við bara og fengum okkur kaffibolla og tókum stöðufund og fórum svo út aftur rétt eftir hádegið og fórum að ýta upp öðrum litlum garði. Við vorum svo að því allan seinni partinn og verður áframhald á því í nótt,“ segir hann frá.

Nokkrar af stærstu jarðýtum landsins stóðu á varnargarðinum og vandi …
Nokkrar af stærstu jarðýtum landsins stóðu á varnargarðinum og vandi að spá um örlög þeirra hefðu Þröstur og félagar ekki komið á vettvang og forðað vélunum með fumlausum vinnubrögðum. Ljósmynd/Þröstur Kjaran Elísson

Árs afhendingarfrestur á nýjum tækjum

Blaðamaður spyr um verðmæti vélanna í peningum sem Þröstur kveður þó ekki vera aðalmálið hér. „Jú, þetta er alveg slatti í poka sko en milljónirnar eru ekki allt. Þetta eru tæki af þeirri sortinni að hefðu þau brunnið þarna inni hefði kannski tekið ár að fá ný tæki í staðinn, það er eins árs afhendingarfrestur á svona tækjum yfirleitt,“ segir hann.

Vélarnar eru nú allar komnar af hættusvæði og eiga að sögn Þrastar Kjarans Elíssonar bjargvættar greiða leið frá núverandi staðsetningu komi til frekari eldsumbrota.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert