„Við trúum því að með því að stíga þetta skref getum við hvatt aðra til að fylgja okkar fordæmi og þannig stuðlað að heilbrigðara hagkerfi. Góður andi í kjaraviðræðum gefur tilefni til bjartsýni og vill Byko leggja sitt af mörkum til að svo verði áfram,“ segir Sigurður Brynjar Pálsson forstjóri Byko.
Tilkynnt var í gær að tekin hefði verið ákvörðun um að hækka ekki verðlistaverð Byko næstu sex mánuði hið minnsta. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að til að ná þjóðarsátt þurfi allir aðilar að koma að málum, fyrirtæki landsins, hið opinbera og aðilar vinnumarkaðarins.
Ákvörðun Byko sé tekin til að sýna í verki samfélagslega ábyrgð í takt við áherslur fulltrúa verkalýðsforystunnar og atvinnulífsins.
„Næstu misseri munu fara í að endursemja við okkar birgja á þessum forsendum og fá þá í lið með okkur að tryggja áframhaldandi stöðugleika. Mikilvægt er að allir í virðiskeðjunni séu samstíga til að markmiðin náist,“ segir í tilkynningu Byko.