Gos ekki ólíklegt í bænum, verði annað kvikuhlaup

Ekki þykir ólíklegt að gjósa muni í Grindavíkurbæ, verði annað kvikuhlaup úr Svartsengi.

Stóra sigdalssprungan, sem varð sýnileg 10. nóvember og liggur í gegnum Grindavík, virðist tengjast gossprungunni við Sundhnúkagígaröðina sem myndaðist í eldgosinu þann 18. desember.

Þetta segir Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár hjá Veðurstofu Íslands og rannsóknarprófessor við umhverfis- og byggingarverkfræðideild hjá Háskóla Íslands, í Dagmálum þar sem eldgosið við Grindavík er til umræðu.

Þátturinn birtist í fullri lengd í fyrramálið en hér fyrir ofan má hlýða á brot úr þættinum.

Hraun vall upp úr syðri gossprungunni, sem opnaðist um hádegi …
Hraun vall upp úr syðri gossprungunni, sem opnaðist um hádegi 14. janúar, og tók að renna inn í byggðina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einn stærsti veikleikinn

„Þessi sprunga – hún liggur vel norður fyrir bæinn, í áttina að Hagafelli og beygir suðaustur við Hagafell. Þannig að gossprungan 18. desember virðist hafa endað á því að tengjast þessari stóru sigdalssprungu, sem var væntanlega gömul en gleikkaði – varð stærri núna,“ segir Benedikt.

„Þar sem þetta er eins stærsta sprungan á svæðinu er þetta væntanlega einn stærsti veikleikinn í styrk jarðskorpunnar. Og mögulega þegar gosið var 18. desember – og gossprungan var að fikra sig til suðurs, þá hafi hún sem sagt skynjað að það væri auðveldasta leiðin, að beygja til suðurs inn á þessa stóru sprungu í stað þess að halda áfram eftir miðjum ganginum.“

Gossprungan sem myndaðist 18. desember er merkt með rauðum línum …
Gossprungan sem myndaðist 18. desember er merkt með rauðum línum á kortið við Stóra-Skógfell. Gossprungurnar sem mynduðust í gær eru nær Grindavík. Kort/mbl.is

Ekki ólíklegt að það gjósi í Grindavíkurbæ

Benedikt segir flókið spennuástand efst í jarðskorpunni, sem sé margsprungin.

„Og núna í þessum atburði 14. [janúar] þá hleypur kvikan frá svipuðum stað, frá Stóra-Skógfelli og til suðurs og svo gýs akkúrat í framhaldi á þessari stóru sprungu suðaustan við Hagafell,“ segir hann og heldur áfram.

„Þá svona verður maður að hugsa: Er þetta þá að sýna ákveðna leið fyrir kvikuna? En það er ómögulegt að segja.“

Spurður hvort hann telji líklegt að kvika leiti til yfirborðs í Grindavíkurbæ, verði aftur kvikuhlaup úr Svartsengi, segir hann þá sviðsmynd ekki ólíklega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert