Goslok skammt undan með þessu áframhaldi

Lítil kvika kemur úr gosopinu.
Lítil kvika kemur úr gosopinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lítið magn af kviku flæðir úr nyrðri gossprungunni, sem opnaðist við Grindavík á sunnudag, og ef fram fer sem horfir þá styttist í goslok.

Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

„Gosið er orðið mjög veikt en enn þá í gangi. Það hefur dregið mikið úr því og það er orðið mjög lítið – líklegt að það sé ekki langt eftir,“ segir Magnús.

Magnús Tumi Guðmundsson segir að líklega sé ekki langt eftir …
Magnús Tumi Guðmundsson segir að líklega sé ekki langt eftir af gosinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svipuð atburðarás og í síðasta gosi

Hann segir það líklegt að svipuð atburðarás sé að eiga sér stað og í gosinu í desember. Þá hófst gos af miklum krafti en lognaðist út af á nokkrum dögum.

„Það er enn þá mjög lítið af hrauni búið að koma upp, þarna á þessum stað [Sundhnúkagígaröðinni], og enn þá er bara búið að koma upp svona 10% af því sem kom upp í Fagradalsfjalli,“ segir hann.

Spurður hvort að líklegt sé að eldgos haldi áfram að verða á nokkurra mánaða fresti, eins og að undanförnu, segir hann það mögulegt. Ef horft sé til sögunnar þá sé þessi atburðarás fjarri því lagi að vera búin, þó það sé vitaskuld háð óvissu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert