„Hægt að hugsa þær sem fjölskyldu“

Eldar loga enn í nágrenni við Grindavík.
Eldar loga enn í nágrenni við Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, reiknar með því að kvikan sem hefur komið upp í eldgosinu nálægt Grindavík sé mjög svipuð og í gosinu 18. desember, að minnsta kosti hluti af henni. Þetta þýðir að kvikan þróaðri en sú sem kom upp í Fagradalsfjalli.

Hópur vísindamanna í berg- og jarðefnafræði við Há­skóla Íslands náði í gær sýnum úr hrauninu norðan við Grindavík og má búast við bráðabirgðaniðurstöðum mælinga á hrauninu í dag. Þorvaldur hefur ekki séð niðurstöðurnar.

Kort/mbl.is

Ef kvika kemur beint upp úr dýpra kvikuhólfi getur hún aftur á móti verið frumstæðari, segir hann, líkt og sú sem kom upp í Fagradalsfjalli. Slík kvika er bæði heitari og meira þunnfljótandi.

Hraun rann inn í Grindavík í gær og yfir íbúðarhús …
Hraun rann inn í Grindavík í gær og yfir íbúðarhús í bænum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þessar kvikur sem hafa verið að koma upp núna eru allar af sama stofni. Það er hægt að hugsa þær sem fjölskyldu. Sú sem kom upp 18. desember er þá yngst af þeim öllum og er þróuð að því leytinu til að hún hefur kristallast og sett af sér þungu efnin, gert sjálfa sig léttari til að komast upp,” greinir Þorvaldur frá og segir innihald magnesíums í henni lægra. Hún sé ekki eins heit og heldur seigari.

Þorvaldur Þórðarson.
Þorvaldur Þórðarson. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Kvikan sem fór inn í Grindavík í gær úr syðri sprungunni virðist vera aðeins seigari heldur en sú sem var norðar. Hún virtist eiga aðeins erfiðara með að koma sér áfram eftir opinni hraunrás og var að kólna dálítið mikið,” bætir hann við og segir hana fyrir vikið hafa dreift minna úr sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert