Hraunflæðið ekki með sama hraða og í gær

Grindavík seinni partinn í gær.
Grindavík seinni partinn í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Hraunflæðið úr syðri sprungunni virðist að mestu eða öllu leyti hætta og eitthvað virðist hafa dregið úr rennsli úr nyrðri sprungunni. Þetta segir Hördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna. Unnið hefur verið í nótt að því að stækka varnargarðinn við Grindavík að vestan og hækka við Nesveg.

Á tíunda tímanum í dag mun vísindafólk funda um stöðuna og í framhaldinu munu almannavarnir fara yfir stöðuna, meðal annars með það í huga hvort til greina komi að fara í verðmætabjörgun inn til Grindavíkur.

Eykur von um verðmætabjörgun

Hjördís segir góðu fréttirnar við að hægt hafi á hraunrennslinu að það eykur von um að hægt sé að fara í verðmætabjörgun. Hún tekur þó fram að þótt það virðist sem hægt hafi á rennslinu sjáist það ekki almennilega fyrr en í birtingu.

Lögreglan og aðrir viðbragðsaðilar fylgjast með gangi mála bæði úr vefmyndavélum, en einnig úr dróna sem drónahópur hefur sent í reglulegar skoðunarferðir yfir svæðið. Hjördís segir það hafa sparað fjölmargar þyrluferðir og veitt ómetanlega sýn fyrir viðbragðsaðila.

Staðan við Grindavík í gærkvöldi.
Staðan við Grindavík í gærkvöldi. Kort/mbl.is

Taka stöðuna eftir fund vísindamanna

Heitt vatn fór af bænum í gær eftir að hraun rann yfir heitavatnslögn úr Svartsengi og þá hefur einnig verið rafmagnslaust í bænum. Spurð hvort hún geri ráð fyrir að íbúar geti komist til síns heima í dag til að bjarga verðmætum eða reynt að takmarka tjón segir hún að það sé verkefni dagsins að skoða hvað gert verði.

Hjördís tekur fram að það sé ástæða af hverju ekki sálu hafi verið hleypt inn í bæinn í gær. „Við vitum ekki neitt um það hvernig jörðin hagar sér þrátt fyrir ákveðna þekkingu á þessu.“

Ein og fyrr segir verður daglegur fundur vísindafólks nú klukkan 9:30 á eftir.

Hjördís segir að í birtingu muni einnig koma í ljós hvernig hafi tekist til með hækkun varnargarðsins til vesturs meðfram Nesvegi, en honum er ætlað að verja bæinn fyrir hraunflæði úr nyrðri sprungunni sem runnið hefur vestur meðfram garðinum sem komið var upp.

Hún segir að í birtingu muni einnig koma í ljós hver hraðinn á hrauninu sé og hvort að núverandi garðar eigi að duga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert