Hraunflæðið ekki með sama hraða og í gær

Grindavík seinni partinn í gær.
Grindavík seinni partinn í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Hraun­flæðið úr syðri sprung­unni virðist að mestu eða öllu leyti hætta og eitt­hvað virðist hafa dregið úr rennsli úr nyrðri sprung­unni. Þetta seg­ir Hör­dís Guðmunds­dótt­ir, upp­lýs­inga­full­trúi al­manna­varna. Unnið hef­ur verið í nótt að því að stækka varn­argarðinn við Grinda­vík að vest­an og hækka við Nes­veg.

Á tí­unda tím­an­um í dag mun vís­inda­fólk funda um stöðuna og í fram­hald­inu munu al­manna­varn­ir fara yfir stöðuna, meðal ann­ars með það í huga hvort til greina komi að fara í verðmæta­björg­un inn til Grinda­vík­ur.

Eyk­ur von um verðmæta­björg­un

Hjör­dís seg­ir góðu frétt­irn­ar við að hægt hafi á hraun­rennsl­inu að það eyk­ur von um að hægt sé að fara í verðmæta­björg­un. Hún tek­ur þó fram að þótt það virðist sem hægt hafi á rennsl­inu sjá­ist það ekki al­menni­lega fyrr en í birt­ingu.

Lög­regl­an og aðrir viðbragðsaðilar fylgj­ast með gangi mála bæði úr vef­mynda­vél­um, en einnig úr dróna sem dróna­hóp­ur hef­ur sent í reglu­leg­ar skoðun­ar­ferðir yfir svæðið. Hjör­dís seg­ir það hafa sparað fjöl­marg­ar þyrlu­ferðir og veitt ómet­an­lega sýn fyr­ir viðbragðsaðila.

Staðan við Grindavík í gærkvöldi.
Staðan við Grinda­vík í gær­kvöldi. Kort/​mbl.is

Taka stöðuna eft­ir fund vís­inda­manna

Heitt vatn fór af bæn­um í gær eft­ir að hraun rann yfir heita­vatns­lögn úr Svartsengi og þá hef­ur einnig verið raf­magns­laust í bæn­um. Spurð hvort hún geri ráð fyr­ir að íbú­ar geti kom­ist til síns heima í dag til að bjarga verðmæt­um eða reynt að tak­marka tjón seg­ir hún að það sé verk­efni dags­ins að skoða hvað gert verði.

Hjör­dís tek­ur fram að það sé ástæða af hverju ekki sálu hafi verið hleypt inn í bæ­inn í gær. „Við vit­um ekki neitt um það hvernig jörðin hag­ar sér þrátt fyr­ir ákveðna þekk­ingu á þessu.“

Ein og fyrr seg­ir verður dag­leg­ur fund­ur vís­inda­fólks nú klukk­an 9:30 á eft­ir.

Hjör­dís seg­ir að í birt­ingu muni einnig koma í ljós hvernig hafi tek­ist til með hækk­un varn­argarðsins til vest­urs meðfram Nes­vegi, en hon­um er ætlað að verja bæ­inn fyr­ir hraun­flæði úr nyrðri sprung­unni sem runnið hef­ur vest­ur meðfram garðinum sem komið var upp.

Hún seg­ir að í birt­ingu muni einnig koma í ljós hver hraðinn á hraun­inu sé og hvort að nú­ver­andi garðar eigi að duga.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka