Skúli Halldórsson
Svo virðist sem hraunið úr syðri gossprungunni, sem opnaðist rétt norðan Grindavíkur um hádegi á sunnudag, hafi numið staðar í bænum.
Gosvirknin í sprungunni virðist í það minnsta vera nær alveg fallin niður.
Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að hraunrennsli úr þeirri sprungu sé nú svo hægt að erfitt sé að merkja nokkra hreyfingu á því inn í bæinn.
Ekki lítur út fyrir að fleiri hús hafi orðið hrauninu að bráð að sinni, umfram þau þrjú sem þegar hafði verið greint frá.
Elísabet segir það líta út sem svo að hraunflæðið hafi stöðvast við lóðarmörk húss nr. 20, en það stendur við götuna Efrahóp.
„Við sjáum litlar spýjur öðru hverju koma upp á yfirborðið,“ segir hún um gosvirknina í syðri sprungunni.
Þá gæti einnig hafa dregið lítillega úr gosvirkni stærri sprungunnar, litlu norðar, en hraun heldur áfram að renna úr henni meðfram varnargarðinum og í vestur, áður en það tekur svo stefnuna í suður.
Það hraunflæði hefur ekki náð að byggðinni í Grindavík.