Húsið nánast klárt: „Þetta er hræðilegt“

Önnur gossprunga myndaðist við jaðar Grindavíkurbæjar um hádegi í gær.
Önnur gossprunga myndaðist við jaðar Grindavíkurbæjar um hádegi í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hjartað slær hratt, tárin renna og ég veit varla hvernig mér líður,“ sagði Gerður Sigríður Tómasdóttir, íbúi við Efrahóp í Grindavík.

Morgunblaðið ræddi við hana síðdegis í gær þegar glóandi hraunstraumur hafði náð efstu húsunum við Efrahóp svo þau stóðu í björtu báli. Þar á meðal var húsið númer 19 við götuna.

Eigendur þess eru þau Guðrún Dögg Elvarsdóttir og Hrannar Jón Emilsson, sonur Gerðar Sigríðar og Jóns Emils Halldórssonar eiginmanns hennar.

Mikil samstaða

„Húsið var nánast klárt, búið að mála og til stóð að flytjast inn á allra næstu dögum. Þetta er hræðilegt,“ segir Gerður Sigríður sem búið hefur við Efrahóp frá árinu 2018. Þau Jón Emil voru þá meðal fyrstu íbúa, en ungt barnafólk sem er að skapa sína framtíð býr í mörgum húsanna á þessum slóðum.

„Meðal íbúa hefur verið mikil samstaða í einstöku samfélagi sem ég mun sakna mjög. Núna veit maður ekkert hvar þessir góðu nágrannar eru búsettir né heldur ættingjar og nánir vinir. Tilveran er hrunin á svo margan hátt,“ segir Gerður Sigríður sem missti son sinn af slysförum fyrir nokkrum árum.

Tilveran í algjörri óvissu

„Að sjá hús nágranna sinna fara undir glóandi hraun rífur upp gömul sár, þótt af öðrum toga séu,“ segir Gerður Sigríður.

Hún hefur í húsi sínu að Efrahópi 12 að undanförnu hýst búslóðir tveggja fjölskyldna sona sinna; fjölskyldu Hrannars Jóns og Helga Hrafns. Sá býr við Vesturhóp með sinni fjölskyldu, sem rýmdi hús sitt nýlega og kom sínum eigum fyrir á öruggum stað, að því er talið var. „Við erum örugg sem stendur í sumarhúsi austur í Grímsnesi; en framtíðin og tilveran er annars í algjörri óvissu,“ segir Gerður Sigríður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert