Verktakar sem unnið hafa við varnargarða í kringum Grindavík eru þessa stundina í biðstöðu en tilbúnir að stökkva til ef þörf þykir á að ráðast í frekari framkvæmdir. Í gærkvöldi og í nótt var unnið að því að lengja svokallaðan L8 garð, sem liggur næst bænum, bæði til austurs yfir Grindavíkurveg og til vesturs til að verja bæinn ef hraunið myndi renna í suðurátt meðfram Nesvegi.
Einn forsvarsmanna varnargarðanna segir þá ótvírætt hafa sannað sig í hamförunum undanfarinn sólarhring.
Ari Guðmundsson, einn þeirra sem hefur umsjón með gerð garðanna og starfsmaður Verkís, segir í samtali við mbl.is að seint í gærkvöldi hafi verið hafist handa við að hækka kafla á garðinum við Nesveg þar sem hann er í lægðum. Segir hann það eiga að sporna við að hraunið myndi renna inn í bæinn ef streymið heldur áfram.
Staðan það sem af er degi er hins vegar sú að hraunjaðarinn hefur að mestu haldist óbreyttur að sögn Ara og eru starfsmenn því í biðstöðu, utan nokkurra sem voru sendir til að klára smærri verkefni í garðinum um Svartsengi.
Í gær þegar ljóst var að hraun hafði farið yfir skarð sem reynt hafði verið að fylla upp í við Grindavíkurveg á svokölluðum L7 garði (hann er norðar og lengra frá Grindavík en L8) var hafist handa við að lengja L8 til austurs. Ari segir það hafa verið gert til að hraunið myndi ekki leita til austurs og inn í bæinn, heldur myndi garðurinn leiða það til vesturs.
Hann segir að náið sé fylgst með framvindu og að virkt samband sé við stjórnvöld og almannavarnir ef eitthvað meira gerist.
Ari segir að garðarnir hafi staðið sig mjög vel og ótvírætt hafa sannað gildi sitt. Segir hann að í raun hafi þeir virkað eins vel og hægt var að vonast. Því miður hafi nyrðri sprungan opnast á óheppilegum stað þar sem hún fer í gegnum garðinn og hluti sprungunnar er sunnan megin við garðinn. Því hafi hraun runnið í átt að bænum og í tilfelli syðri sprungunnar inn í bæinn. Að öðru leyti hafi hraunið fylgt garðinum líkt og hraunfræðilíkön hafi sýnt og garðarnir því virkað eins og gert hafði verið ráð fyrir.