Jarðeldarnir við Grindavík halda nokkuð stöðugt áfram. Hugsanlega hefur virknin í syðri sprungunni við jaðar byggðarinnar þó minnkað lítið eitt.
Engar nýjar gossprungur hafa myndast frá því að seinni sprungan myndaðist um hádegisbilið í dag.
Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir kvikuganginn þann sama í þessu kvikuhlaupi og því sem varð 10. nóvember.
Aðspurður segir Böðvar í samtali við mbl.is að gangurinn hafi ekki stækkað en að hafa beri í huga að hann sé í raun aldrei ein bein lína.
„Þetta er svona úti um allt náttúrulega – stórt rými.“
Ef nýjar gossprungur myndist innan bæjarmarkanna myndist þær því ekki endilega á sprungunni sem varð til í kjölfar kvikuhlaupsins 10. nóvember.
Hraun flæðir úr nyrðri sprungunni norðan við varnargarðana sem verja eiga byggð í Grindavík og beina þeir meginhraunstraumnum til vesturs. Þá flæðir hraun enn inn í Grindavíkurbæ við Efrahóp og hafa að minnsta kosti þrjú hús orðið því að bráð.
Böðvar segir ekki líta út fyrir að landris sé hafið að nýju á svæðinu, en land hætti í raun aldrei að rísa við jarðeldana sem urðu í desember.
„Þetta virðist vera orðið nokkuð stöðugt kerfi að mestu leyti,“ segir Böðvar en tekur fram að þeir sem fari yfir aflögunargögnin sjá landrisið þó best og að það geti tekið svolítinn tíma að meta það.